- Advertisement -

Sigmundur Davíð vill siða kristindóminn

Gunnar Smári skrifar:

Hvað er hægt að segja um þetta? Hér virðist Sigmundur Davíð vera að skammast út í kirkjuna fyrir að taka þátt í umræðu dagsins, um þau málefni sem brenna á fólki, eins og stjórnmálamaður sem kærir sig ekki um afskipti klerka af pólitískum málefnum og bregst við með umvöndunum um málefni kirkjunnar, geldur líku líkt, og messar hér um hinn sanna sið, eins og hann heldur að hann eigi að vera.

Þetta er náttúrlega fyrst og fremst stórkostlegt rugl, byggt á stórundarlegri túlkun á sögu kristninnar. Sigmundur telur upp hin góðu áhrif kristninnar á samfélögin, hvernig hún leiddi til aukinnar mannúðar og réttlætis, en dregur svo þá ályktun að kirkjan eigi ekki halda lengra áfram á þeirri braut. Reynir meira að segja að takmarka róttækt erindi Martin Luther King jr., girða hann af eins og hann gerði í annarri grein um daginn, þegar hann vildi draga dr. King fram til vitnis gegn kröfum Black Lives Matter. Sigmundur er hrútskýrandi allra hrúta; veigrar sér ekki við að túlka Martin Luther King jr. fyrir svörtu fólki.

Þessi stefna náði svo lengst í Þýskalandi nasismans.

En það sem mér finnst skondnast við þessa grein er að auk dr. King nefnir Sigmundur þrjá menn aðra. Justin Welby biskup af Kantaraborg, þekktan baráttumann fyrir mannúð og mildi, gegn ójöfnuði, skuldaklafa almennings, fátækt, mismunun, ofbeldi og kúgun; Welby tilgreinir Sigmundur sem afvegaleiddan mann og spilltan af hugmyndum sinnar tíðar, dregur hann á stokk sem víti til varnaðar.

Hins vegar tilgreinir Sigmundur tvo menn sem honum finnst réttsýnir og aðdáunarverðir. Annars vegar Jordan Peterson sálfræðiprófessor og fyrirlesara fyrir að fylla stóra sali með sínum boðskap, boðskap sem kalla mætti nýfrjálshyggjutuggu um að hin betur settu séu vel komin af ríkidæmi sínu eins og hin lakar settu geti sjálfum sér um kennt fátækt sína og valdaleysi; og um að konan sé ekki fórnarlamb feðraveldisins heldur séu karlar, og einkum ungir drengir, fórnarlömb réttindabaráttu kvenna. Það má sjá hvaðan Sigmundur fékk innblástur til að túlka erindi Martin Luther King jr. svo að hvítir karlar væru fórnarlömb krafna Black Lives Matter.

Og hins vegar nefnir Sigmundur til leiks klerkinn William Ralph Inge, sem blessunarlega er flestum gleymdur í dag. Sigmundur hefur eftir William Inge að sá sem giftist hugmyndastraumi sinnar tíðar muni verða ekkjumaður í næsta lífi. Þetta er hraustlega mælt af manni sem aðhylltist mannkynbætur, byggðar á útúrsnúning Francis Galton á kenningum Charles Darwin um náttúruval. Galton og fylgjendur hans óttuðust að aðstoð við hin veiku og fátæku myndu skaða þjóðarlíkamann og að koma yrði í veg fyrir að slíkt fólk fjölgaði sér. Í anda þessara stefnu var fjöldi fólks gerður ófrjór og fatlað fólk, veikt og fátækt var einangrað í kynjaskiptum hælum á afskiptum landsvæðum. Eftir því sem þessar kenningar fengu meiri stuðning, meðal annars vegna þess að áróður fyrir þeim var ríkulega fjármagnaður af auðkýfingum sem fyrirlitu almúgann, breyttust þau hæli sem reist höfðu verið á mannúðartíma átjándu aldar í raunverulegar útrýmingarbúðir, þar sem fólk var drepið með líkamlegri, andlegri og félagslegri vanrækslu. Þessi stefna náði svo lengst í Þýskalandi nasismans, þar sem stjórnvöld gengu skrefinu lengra og drápu ekki aðeins fólk með vanrækslu heldur tóku það einfaldlega af lífi, allt í nafni þess að það væri óæskilegt framþróun þjóðarinnar, líkt og mannkynsbæturnar, sem William Inge var svo hrifinn af, boðuðu.

Það þarf ekki að taka fram klerkurinn William Inge var andstæðingur lýðræðis, taldi það aftra um of þeirra sem voru réttbornir til valda eða hefðu sérstaka hæfileika til að ráðgast með annað fólk. Inge óttaðist að lýðurinn myndi taka völdin af þessu frábæra fólki. Og Inge var andstæðingur kosningaréttar kvenna af svipuðum ástæðum. Og á móti opinberu velferðarkerfi fjármögnuðu af sköttum, það taldi hann refsa hinum vel lukkuðu en verðlauna hin veiklunduðu og gölluðu. Samkvæmt Sigmundi er líklegt að William Inge hafi gifst þessum skoðunum sínum í handanlífinu, en líklega eru ekki margir sammála honum um á hvorum staðnum það var.

Með þessa tvo á sitt hvora hlið stekkur Sigmundur Davíð fram í þessari grein og vill siða kristindóminn. Vonandi mun kirkjunnar fólk, sem eitthvað leggur upp úr mannúð og mildi fagnaðarerindisins, svara þessu; það ætti að taka þessu sem veisluboði þegar skrattinn sjálfur mæti til messu og snýr boðskapnum upp á andskotann.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: