- Advertisement -

Þyrfti að fjölga um 200 manns í lögreglunni

„Íbúum hefur frá 2007 fjölgað verulega, um 25%, en lögreglumönnum fækkað um 13%.“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdsóttir.

Alþingi „Á höfuðborgarsvæðinu starfa núna færri lögreglumenn en þegar embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var stofnað 2007. Þá störfuðu þar 339 lögreglumenn en í dag eða í fyrra voru þeir 297 talsins. Hvað skýrir þá forgangsröðun að lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu hafi fækkað á sama tíma og fólksfjölgun hefur verið gríðarleg og verkefnin þyngst? Fáliðuð lögregla er ekki bara staðan á höfuðborgarsvæðinu, yfir landið allt speglast þessar pólitísku áherslur stjórnvalda,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn á Alþingi í gær.

Að hennar mati er staðan alvarleg.

Það er tímabært að vekja athygli á því hversu alvarleg hún er og hverjar birtingarmyndirnar eru. Ég vil sérstaklega ræða þrjú atriði. Fyrst að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan þar þjónar í dag tæplega 250.000 íbúum landsins. Verkefnin eru mörg, fjölbreytt og sum hver auðvitað mjög þung. Hér á svæðinu hefur orðið gríðarleg fólksfjölgun frá því að sameinað embætti var stofnað en lögreglumönnum hefur hins vegar fækkað. Íbúum hefur frá 2007 fjölgað verulega, um 25%, en lögreglumönnum fækkað um 13%. Svo mikil fækkun getur einfaldlega ekki gengið upp hjá embætti sem fær til meðferðar 75–80% allra hegningarlagabrota. Fjárlagafrumvarp ársins 2024 færði embættinu 113 millj. kr. aðhaldskröfu. Hjá stofnun þar sem um 80–90% af rekstrarfé fara í laun hefur þetta strax áhrif.

„…eru þess vegna víðs fjarri lágmarksþörfinni…“

Í fyrra fjölgaði lögreglumönnum vissulega, en það var hins vegar ekki um raunfjölgun að ræða því vinnutímastytting hjá stofnunum sem eru á vakt allan sólarhringinn allan ársins hring gerir að verkum að fjölga þarf bara til að halda í horfinu. 2022 voru lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu um 1,2 lögreglumaður á hverja 1.000 íbúa eða um einn lögreglumaður á hverja 1.000 íbúa. Til að hlutfallið yrði svipað og þar sem hlutfallið er næstlægst á landinu þyrfti að fjölga lögreglumönnum hér í kringum 200. Telur dómsmálaráðherra að svo fáliðuð lögregla búi við öruggt starfsumhverfi og geti náð fram tilgangi sínum?“

Næst var það lögreglan á landsbyggðinni, þar er sama staða og í þéttbýlinu. Mjög vond.

„Annað atriðið sem ég ætla að nefna er landsbyggðin. Árið 2020 var fjöldi lögreglumanna á hverja 100.000 íbúa næstlægstur á Íslandi í samanburði við 32 Evrópuríki. Staðan í alþjóðlegum samanburði er þess vegna langt frá því að vera góð. Umdæmin á landsbyggðinni eru víðfeðm sem gerir starf lögreglunnar á landsbyggðinni þyngra. Hvernig birtist þetta hjá fólkinu í landinu, t.d. í viðbragðstíma lögreglu sem er víða ábótavant samkvæmt orðum hæstv. dómsmálaráðherra sjálfrar? 2013 birtist mat ríkislögreglustjóra í sérstakri skýrslu um að 860 lögreglumenn á landinu væru algjör lágmarksþörf. Síðan hefur orðið mikil fólksfjölgun á landinu og fjöldi ferðamanna auðvitað vaxið ævintýralega. Þeir 895 lögreglumenn sem eru starfandi á landinu í dag eru þess vegna víðs fjarri lágmarksþörfinni og það er reyndar svo að til þess að geta talið upp í 895 lögreglumenn þarf að telja með alla ófaglærða og starfandi lögreglunema. Lögreglan hefur sjálf ítrekað á liðnum árum varað við stöðunni,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir á Alþingi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: