- Advertisement -

Mér finnst ég upplifa harðkjarna innflutta pólitík

Þogerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra:

Það hefur skilað okkur í efstu sæti samfélaga þegar kemur að jafnrétti og velsæld.

Síðustu daga hef ég fylgst með umræðu um að Ísland eigi ekki að styðja við þróunaraðstoð úti í heimi. Líkt og víða annars staðar sjáum við dýpri átakalínur vera að myndast í íslenskum stjórnmálum sem hverfast um hvar hagsmunum okkar er best borgið í síbreytilegum heimi. Mér finnst ég upplifa að vissu leyti harðkjarna innflutta pólitík. Ég vil hins vegar íslenska pólitík sem hefur í áraraðir byggst á baráttu fyrir okkar grunngildum um lýðræði, frelsi og mannréttindi. Allra. Í þeirri stefnu felst ákveðin fegurð en líka veruleikatenging.

Hingað til höfum við átt allt okkar undir því að vera þátttakendur í alþjóðlega samvöxnu kerfi þar sem samvinna og sameiginlegur skilningur ríkir um að ágreining sé best að leysa með samtali og samningum. Við höfum nýtt okkar rödd til að tala fyrir mannréttindum, jafnrétti og frelsi. Við höfum líka deilt þekkingu og reynslu, til að mynda af jarðvarma í gegnum GRÓ, þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, og aðstoðað lönd í Afríku við að nýta eigin auðlindir á sjálfbæran hátt. Þökk sé slíkum alþjóðlegum samstarfsverkefnum þar sem Ísland leggur sitt af mörkum eru lönd eins og Kenía og Eþíópía orðin leiðandi í sinni heimsálfu í nýtingu hreinnar orku.

Við höfum stutt verkefni sem efla réttindi kvenna og hinsegin fólks í samfélögum þar sem frelsi er skert og kúgun ríkir. Með því að styðja samfélögin beint neyðast færri til að flýja heimkynni sín. Þegar við hjálpum öðrum að hjálpa sér sjálfum gerum við okkar til að tryggja frið og öryggi og drögum úr óstöðugleika og átökum sem hafa áhrif á okkur öll.

Þar fer fram stórkostlegt starf.

Það bitnar ekki á því sem við erum að gera hér heima.

Við erum að setja 1,5 milljarð í stuðning við fólk með geð- og fíknivanda.

2,3 milljarða í styrkingu á heilsugæslu, einkum á landsbyggðinni.

3 milljarða í sjúkrahúsið á Akureyri.

2,5 milljarða í uppbyggingu hjúkrunarheimila.

7,5 milljarða í vegakerfið.

Auk þess sem við héldum meðferðarúrræðum opnum í allt sumar. Því við erum einmitt að hugsa um fólkið okkar.

Ljósið hefur komið upp í umræðunni og mikilvægi þess að tryggja þjónustu þar með langtímasamningum. Þar fer fram stórkostlegt starf. Það þekki ég bæði sem aðstandandi og vinkona. Ég er viss um að í meðförum þingsins og heilbrigðisráðuneytisins fáist farsæl niðurstaða.

Við eigum allt okkar undir að grunngildin sem alþjóðakerfið byggir á nái yfirhöndinni í ágjöfinni sem kerfið hefur mátt þola að undanförnu. Fyrir hagsmuni Íslands er fátt mikilvægara en að endurskipulagningin sem er að eiga sér stað í þessu kerfi verði með þeim hætti að smáþjóð eins og okkar eigi ennþá kost á því að eiga sæti við borðið.

Eitt útilokar ekki annað.

Hagsmunum okkar er best borgið þar og að því erum við að vinna, hvort sem það er í formi alþjóðasamstarfs, þróunaraðstoðar eða með þátttöku á alþjóðavettvangi almennt. Með því að mæta og eiga samtal og standa með okkar bandalagsþjóðum. Þannig erum við að hugsa fyrst og fremst um Ísland. Eitt útilokar ekki annað.

Ég trúi því ekki að minni alþjóðasamskipti og aukin einangrun sé svarið. Eða það að draga fólk í dilka á grunni trúar, húðlitar eða kynvitundar. Við eigum að halda áfram að hlúa að okkar fallega og fjölbreytta samfélagi. Það hefur skilað okkur í efstu sæti samfélaga þegar kemur að jafnrétti og velsæld. Á grunni þeirra gilda sem við sjáum nú vegið að. Það megum við ekki láta líðast.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: