- Advertisement -

Vilja verkjalyf í matvöruverslanir

Þingmennirnir telja brýnt að auka frelsi í sölu lausasölulyfja.

Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram lagafrumvarp um breytingar á lögum um lyfsölu.

„Eðlilegt væri að flokka lausasölulyf í tvo flokka, annars vegar lyf sem aðeins verða seld í apótekum og hins vegar almenn lausasölulyf sem heimilt væri að selja bæði í apótekum og almennum verslunum. Sem dæmi má nefna verkjalyfið Paracetamol (Panodil), apótek má selja 500 mg, 30 stykki í pakka. Almenn verslun fengi hugsanlega leyfi til að selja 500 mg, 10 stykki í pakka. Í apóteki má selja verkjalyfið Ibuprofen (Íbúfen) í 400 mg, 50 stykki í pakka, verslun mætti til dæmis selja 200 mg, 20 stykki í pakka,“ segir meðal annars í greinargerð fjórmenninganna. 

Þar segir einnig að lausasölulyf sé hugtak sem notað er yfir lyf sem heimilt er að selja hér á landi án lyfseðils. „Lyfin eru afhent í umbúðum framleiðanda, með þeim áletrunum sem taldar eru nauðsynlegar fyrir notandann. Með hverri pakkningu er einnig fylgiseðill með mikilvægum upplýsingum. Hægt er að kaupa lausasölulyf í apótekum án lyfseðils frá lækni. Þá er heimilt hér á landi að selja í almennri verslun minnstu pakkningar af minnsta styrkleika nikótínlyfja og flúorlyfja sem ekki eru lyfseðilsskyld. Lyfjastofnun ákveður hvaða lyf má selja í lausasölu og veitir stofnunin slíka heimild að uppfylltum tilteknum skilyrðum, til að mynda um öryggi lyfsins við sjálfsmeðhöndlun.“
    

Þú gætir haft áhuga á þessum

Flutningsmenn frumvarpsins telja brýnt að auka frelsi í sölu lausasölulyfja og breyta lögum í því skyni að heimila sölu lausasölulyfja í almennum verslunum. 

Þingmennirnir fjórir eru: Unnur Brá Konráðsdóttir, Óli Björn Kárason, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Bryndís Haraldsdóttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: