- Advertisement -

Ríkissaksóknari tók fluguna frá DV

Stjórnsýsla „Mjög er hrópað að innanríkisráðherranum beri að víkja úr sínu sæti fyrst að ríkissaksóknari tók fluguna sem Dagblaðið egndi fyrir hann. Engin dæmi hafa þó verið nefnd um það, að ráðherrann og embættismenn hans hafi með nokkrum hætti hamlað eða tafið rannsókn þessa ómerkilega máls, hvað þá að þeir hafi sett fót fyrir rannsakendur.

Ákvörðun saksóknara um víðtæka og harkalega rannsókn á ráðuneyti stjórnarráðsins hefur auðvitað haft margvíslegt óhagræði för með sér fyrir það og starfsmenn þess, svo ekki sé talað um ráðherrann. Það gefur auga leið.“

Umboðsmaður hleypur til, ótilkvaddur

Þetta kemur fram í leiðara Morgunblaðsins, sem líklegt er að Davíð Oddsson hafi skrifað. Hann byrjar á að skrifa: „Það vekur nokkra athygli hve ábyrg yfirvöld í landinu hlaupa viljug og um langan veg eftir vafasamri herferð vafasamasta fjölmiðils landsins, og er þó fréttastofa RÚV ekki talin frá.

Lögreglumenn eru settir til verka til að rannsaka „leka“ úr ráðuneyti vegna meintrar »almennrar« umræðu um málið. Nú vill svo til að margvíslegur leki hefur orðið við rannsókn á lekamálinu frá þeim sem síst skyldi og fjölmiðillinn sem rekur trippin slær upp fullyrðingum og segist byggja á þeim lekum og skáldar svo stórt í eyðurnar, án þess að hika. Ekki þykir ástæða til að rannsaka það allt saman.

Meira að segja umboðsmaður Alþingis hleypur ótilkvaddur til, þótt ekki sé auðvelt að sjá hvaða erindi hann á inn í mál, sem enn þá er til rannsóknar hjá ríkissaksóknara og lögreglu að tilhlutan þess fyrrnefnda.“

Dómstólar sópuðu málinu út af borðinu

Davíð heldur áfram og segir: „Lengi vel var reynt að brjóta með valdi niður regluna um trúnaðarsamband fjölmiðils við heimildarmann sinn. Þar er um grundvallarreglu að ræða, sem einvörðungu sætir undantekningum þegar stórkostlegir aðrir hagsmunir eru í húfi. Héraðsdómur og síðar Hæstiréttur Íslands, sópuðu þessum málatilbúnaði út af borðinu, ekki aðeins einu sinni heldur tvívegis, því svo hart var þetta óvenjulega erindi sótt.

Eftirtektarvert var að sjá, hve margir þeir, sem taka eiga svari frjálsra fjölmiðla, sátu þegjandalegir hjá, þegar þessi atlaga hins opinbera var gerð að fjölmiðlunum.

Enn vakti það athygli að hinum sérkennilega málatilbúnaði skyldi ekki ljúka þegar Hæstiréttur landsins hafði sagt sitt síðasta orð um þátt, sem rannsakendur gerðu svo hátt undir höfði og virtust byggja allt sitt á.

Það geta vissulega verið tilefni til að rannsaka framgöngu stjórnarráðsins, (þau voru mörg á síðasta kjörtímabili, þótt aldrei væri brugðist við), en þó er nokkuð einstakt að það skuli gert af slíkri hörku og af jafn litlu tilefni eins og í þessu tilviki.

En telji þar til bær yfirvöld landsins sig knúin til slíkra verka, af málefnalegum ástæðum, hlýtur að vera einboðið að slík aðgerð standi ekki lengur en nauðsyn krefur.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: