- Advertisement -

Hundruð bíða eftir matargjöfum

Hversu lengi ætlar valdafólk í þessu landi að skella skollaeyrum við neyðarkalli fólks um aðstoð.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Hjá aðfluttu fólki, mest verka og láglaunafólki, er atvinnuleysi nú um 20%. Atvinnuleysið kemur sérlega illa niður á láglaunakonum af erlendum uppruna. Þetta fólk á ekki sparnað sem það getur notað þegar kreppan bankar á dyr. Stór hópur þessa fólks er á leigumarkaði. Þetta fólk hefur minna tengslanet en fólk sem fætt er á Íslandi, eðli málsins samkvæmt. Þetta fólk knúði áfram hagvöxtinn í ferðamanna-góðærinu. Þetta fólk stendur nú uppi með engar eignir og engar tekjur aðrar en atvinnuleysisbætur. Grunnatvinnuleysisbætur eru nú 289.510 kr. á mán­uði, 235.170 eftir að greiddar hafa verið af þeim skattar og gjöld. Öll sem búa á þessu landi, einu því dýrasta í veröldinni, vita að þessi upphæð er langt undir því sem þarf til að geta tryggt þak yfir höfuðið, mat á eldhúsborðið og skil á reikningum. Enda standa nú í röðum eftir matargjöfum hundruð manna og kvenna, m.a. fjöldi einstæðra mæðra sem þurfa að fá hjálp svo að börnin þeirra geti nærst. Áður en að Covid-kreppan hófst var fátækt barna raunverulegt vandamál í íslensku samfélagi. Það vandamál er nú í veldisvexti. Samt þrjóskast stjórnvöld við að hækka grunnbætur. Vegna þess að það má ekki skorta „hvata“ til atvinnuleitar. Í stórkostlegu fjöldaatvinnuleysi. 

Fólkið sem nú er atvinnulaust er fólkið sem hefur unnið baki brotnu, svitnað í erfiðisvinnu svo að kapítalistar geti auðgast. Þetta fólk hefur staðið skil á sköttum og gjöldum af sínum verkafólks-launum. Þetta fólk á það miklu meira inni en nokkur annar hópur að stjórnvöld geri skyldu sína gagnvart þeim. Það er til háborinnar skammar að bætur hafi ekki verið hækkaðar. Hversu lengi ætlar valdafólk í þessu landi að skella skollaeyrum við neyðarkalli fólks um aðstoð, neyðarkalli fólks sem er án atvinnu vegna sóttvarnarráðstafana sem stjórnvöld bera ábyrgð á?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: