- Advertisement -

Ríkistjórnin kýs að auka verðbólguna

…hefur aftur fallið í sama gamla farið
eftir að kerfið tók völdin á ný…

„Það er látið hljóma eins og nánast greiði við skattgreiðendur að þessar nýju álögur séu lagðar á þá og eru kallaðar græn gjöld. Eitt af þessum grænu gjöldum er kolefnisskatturinn svokallaði sem hækkar nú eina ferðina enn. Það er í raun í eðli sínu nokkurs konar nefskattur því að allir þurfa að komast leiðar sinnar og allir, óháð tekjum, þurfa að nýta orku. Því bitnar þetta verst á tekjulægri hópum eins og bent er á í skýrslu Hagfræðastofnunar Háskóla Íslands sem þingmenn hafa nefnt hér fyrr í umræðunni,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins á Alþingi, þegar rætt var þar um lagabreytingar vegna fjárlaga næsta árs.

„Það er þó óhjákvæmilegt að gagnrýna þetta frumvarp vegna megininntaks þess. Það snýst fyrst og fremst um áframhaldandi skatta- og gjaldahækkanir á almenning og það í þessu faraldursástandi. Ég átti satt best að segja ekki von á að stjórnvöld myndu leggja það til við þessar aðstæður en þar halda þau sínu striki og leggja í raun línurnar fyrir nýtt ár með því að ríkið ríði á vaðið og byrji nýja árið, strax 1. janúar, með því að hækka gjöld og aðrar álögur á almenning. Þetta er stefna sem við ákváðum að hverfa frá á sínum tíma, fyrir sex, sjö árum, og töldum mikilvægt að ríkið hefði ekki forystu um að ýta undir verðhækkanir og verðbólgu á nýju ári og þar með auðvitað hækkanir á verðtryggðum lánum heimila og fyrirtækja. Við fórum af stað með það sem átti að verða nýja stefnan áramótin 2014, 2015. En það, eins og svo margt annað, hefur aftur fallið í sama gamla farið eftir að kerfið tók völdin á ný,“ sagði Sigmundur Davíð.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: