- Advertisement -

„Allt sem þú lest er lygi“

Gunnar Smári skrifar:

Hér er fjallað um stórkostlegt samfélagslegt mein. Það er búið að ræna umræðunni, auðvaldið náði henni undir sig. Það er fráleitt í dag að líta á fjölmiðla og almenna umræðu sömu augum og mögulega var hægt að gera fyrir 20 árum, 40 árum eða 60 árum. Hún var langt í frá fullkomin á árum áður en er í dag svo gott sem ónýt.

Ég hef stundum sagt frá því að þegar ég byrjaði í blaðamennsku hafi verið um 150 blaðamenn á landinu en einn upplýsingafulltrúi. Hann hét Jón Hákon Magnússon. Nú eru 500 upplýsingafulltrúar en blaðamenn eru varla fleiri en 75. Og margir þeirra vinna á ritstjórnum sem hafa algjörlega beygt sig undir vald auðvaldsins yfir umræðunni.

Að mæra fjölmiðla í dag og mikilvægi almennrar umræðu er barnaskapur. Þegar blaðamenn koma að upplýsingafljótinu er heill her manna búinn að spilla því ofar með alls kyns eitri. Drykkurinn sem blaðafólkið færir okkur er því baneitraður, oft lítið annað en óblandað eitur.

Ætli það séu ekki fleiri svokallaðir upplýsingafulltrúar sem vinna kringum ráðherrana við að selja almenningi að þeir séu æðislegir, en það eru fréttamenn á fréttastofu Ríkisútvarpsins? Almenn umræða er hrunin og hefur verið hertekin af lygurum sem telja sig ekki þurfa að taka neitt tillit til þess sem er satt eða rétt.

Við erum á þeim stað orð Bigga í Maus eiga vel við: Allt sem þú lest er lygi. Það var ekki Trump sem sagði þetta, heldur Biggi. Og vandinn er ekki að stjórnlyndir pólitíkusar komist ekki upp með hvað sem er (sem þeir reyndar gera) heldur að sjónarmið, afstaða og hagsmunir almennings komast aldrei að. Við lifum í sýndarveruleika auðvaldsins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: