- Advertisement -

Vilja skýrslu frá Bjarna um SpKef

Þingmenn Miðflokks vilja fá beiðni frá Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um ákvarðanir frá þeim tíma sem Steingrímur J. Sigfússon sat í fjármálaráðuneytinu. Þingmennirnir vilja meira um yfirtökuna á SpKef.

Í greinargerðinni með skýrslubeiðinni segir:

„Hinn 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef sparisjóðs. Var þetta gert í þeirri viðleitni að forða innlánseigendum frá því að tapa fé við gjaldþrot sparisjóðsins. Íslenska ríkið stofnaði svo sparisjóðinn SpKef og ríkissjóður lagði til um 900 millj. kr. stofnfjárframlag. Í kjölfarið kom í ljós að staða SpKef var verri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Nánar tiltekið gaf bráðabirgðaniðurstaða eignamats til kynna að eigið fé SpKef sparisjóðs væri neikvætt um 11,2 milljarða kr. miðað við árslok 2010. Í mars 2011 tók Landsbankinn yfir rekstur, eignir og skuldbindingar SpKef sparisjóðs með þeim hætti að SpKef var sameinaður Landsbankanum. Í janúar 2012 var kynnt niðurstaða um að yfirteknar eignir hefðu verið 17,2 milljörðum kr. lægri en yfirteknar skuldir. Gert var samkomulag á milli ríkisins og Landsbankans um að ríkissjóður mundi leggja Landsbankanum til fjárframlag til að mæta neikvæðri eignastöðu SpKef. Í júní 2012 var kynnt bindandi niðurstaða úrskurðarnefndar um að neikvæð staða sparisjóðsins væri 19,2 milljarðar kr. og féll sá kostnaður á ríkissjóð. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar 1 nam kostnaður ríkisins, að teknu tilliti til vaxta, samtals 25 milljörðum kr. vegna SpKef. Var greiðslan innt af hendi til Landsbankans með ríkisskuldabréfi sem var með lokagjalddaga 2018. Ríkið skuldbatt sig því til að greiða (ábyrgjast) Landsbankanum þann mun sem var á verðmæti yfirtekinna eigna og skulda (innlána). Í ljósi alls þessa þá skiptir það ríkissjóð og skattgreiðendur miklu að fá upplýsingar um hvert var tjón Landsbankans, m.a. hvert var hið raunverulega tjón Landsbankans og hvernig var eignaumsýslu Landsbankans háttað, þ.e. hvert var yfirteknum eignum vegna SpKef ráðstafað og á hvaða verði. Jafnframt skiptir miklu máli að fyrir liggi hvaða upplýsingar voru þegar til staðar um eiginfjárstöðu og lausafjárvanda Sparisjóðs Keflavíkur þegar svo afdrifaríkar ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði voru teknar.“

Málið er á dagskrá Alþingis í dag.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: