- Advertisement -

Kolbeinn: Árásir auðmanna

Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur skrifað um framgöngu Samerjamanna:

Forsvarsmenn Samherja nýta nú auð sinn í endalausar árásir gegn fréttamanni sem þeim finnst hafa verið sér óþægur ljár í þúfu. Og í leiðinni að allri fréttastofu RÚV. Auð sem þeir hafa öðlast við að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Og sækja að einstaka starfsmönnum Seðlabankans.

Þetta er ljótt. Smásálarlegt. Þráhyggjan er slík að manni verður einfaldlega illt að fylgjast með þessu.

Ég velti því oft og tíðum fyrir mér hvort forsvarsmenn Samherja séu algjörlega úr takti við samfélagið. Mér fannst hegðun sumra þeirra á nefndarsviði Alþingis, þar sem þeir veittust að þáverandi seðlabankastjóra, benda til þess. Gaf ákveðna tilætlunarsemi til kynna, elítuhugsun um að vera yfir þetta allt hafinn og reglur samfélagsins giltu ekki um þá. Þegar ég steig á milli voru það ósjálfráð viðbrögð við því að ungur og kraftalegur maður veittist að eldri manni. En þetta var svo miklu meira en það; það hvernig þú bregst við fólki sem þér finnst vera þér mótdrægt segir nefnilega allt um þig sem manneskju. Og viðbrögðin þarna voru að það ætti bara að öskra þetta óþægilega í burtu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og enn eru forsvarsmenn Samherja við sama heygarðshornið. Hika ekki við að nýta forréttindastöðu sína til reyna að öskra það óþægilega í burtu. Reynið frekar að líta í eigin barm og þroskast af þessari lífsreynslu.

Ég vona að Helgi Seljan, fólkið á fréttastofu RÚV og þeir starfsmenn Seðlabankans sem undir eru hafi það eins gott og hægt er undir þessum ömurlegu kringumstæðum. Hugur minn er alltént hjá þeim.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: