- Advertisement -

„Skiptaregla milli ríkisstjórnarflokkanna“

„Menn eru alltaf að taka einhverja áhættu í lífinu við allar breytingar en ég tel þessar breytingar lagðar fram með það í huga að efla og styrkja enn frekar nýsköpun, bæði á vettvangi hins opinbera og líka í atvinnulífinu almennt og aðgengi almennings og frumkvöðla, jafnt á byrjunarstigi og lengra kominna, til að efla og styrkja og þróa fjölbreytileika í atvinnulífinu. Ég er mjög ánægð með það,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir í umræðu um stuðning við nýsköpun.

Búið er að afleggja Nýsköpunarmiðstöð.

„Kannski er mönnum brugðið, það eru allir óttaslegnir við breytingar þegar um er að ræða stofnanir sem hafa verið starfandi í langan tíma. En ég held að það sé alltaf gott að skoða möguleika á að stokka upp í hlutunum svo að þeir gagnist þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna án þess að missa út þann mannauð og þá þekkingu sem byggst hefur upp á löngu árabili,“ sagði Lilja Rafney.

Litríkasti ræðumaður þingsins, Þorsteini Sæmundssyni var brugðið við ræðu Lilju:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ég ætlaði ekki að taka þátt í þessari umræðu en síðasti ræðumaður ýtti mér upp í púltið. Ég sá allt í einu nýjan vinkil á þessu máli og hann er sá að þetta opinberar hversu skrýtinn kokteill sú ríkisstjórn er sem nú situr. Það er eiginlega dálítið furðulegt þegar hv. þingmaður Vinstri grænna kemur í ræðustól og talar fyrir því að menn taki áhættu í lífinu um leið og hún tekur þátt í að leggja niður ríkisstofnun sem verið hefur tiltölulega óumdeild og gert gríðarlega mikið gagn og breytir henni í einkahlutafélag. Ég verð að segja, frú forseti, að öðruvísi mér áður brá. Kannski er þetta orðin einhver skiptaregla milli ríkisstjórnarflokkanna, að Vinstri græn taka þátt í því að leggja niður vel þokkaða ríkisstofnun og breyta í einkahlutafélag, en Sjálfstæðisflokkurinn horfir á heilbrigðiskerfið sem meira og meira er sveiflað til marxískrar hugmyndafræði með hverjum deginum. Upphaflega var lagt upp með að þessi ríkisstjórn væri með breiða skírskotun en í ljós hefur komið æ ofan í æ, m.a. í þessu máli, að menn eru sífellt að finna einhvern samnefnara sem þau ólíku öfl sem standa að ríkisstjórninni geta komið sér saman um, meðreiðarsveinninn hreyfir hvorki legg né lið og lætur hafa sig út í allt fyrir þrjá ráðherrastóla. Þetta er í stuttu máli efnisinnihald ríkisstjórnarinnar sem nú situr.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: