- Advertisement -

Bráðaaðgerðir þarft til bjargar rekstri borgarinnar

Skuldir aukast og nær tíunda hver króna sem rennur í borgarsjóð fer í vexti og verðbætur.

Hildur Björnsdóttir.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, sagði í viðtali við Miðjuna:

„Það er fyrirhugað skuldabréfaútboð hjá borginni núna miðvikudaginn 10. maí nk. og verður sannarlega fróðlegt að fylgjast með þátttöku í útboðinu, ekki síst í ljósi þeirra tíðinda sem bárust fyrir helgi, að niðurstaða ársreiknings vegna ársins 2022 var heldur verri en upphaflega var gefið til kynna og veltufé frá rekstri var neikvætt árið 2022.“

Hallinn á rekstri er og hefur verið mikill.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Það verður því fróðlegt að fylgjast með framvindu útboðsins.“

„Borgarsjóður var rekinn með 15,6 milljarða halla árið 2022, en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir 2,8 milljarða halla. Rekstur borginnar fór því nær 13 milljarða umfram áætlun. Nú hefur komið í ljós að veltufé frá rekstri var neikvætt sem nemur tveimur milljörðum króna.

Borgarstjóri segir vanfjármögnun málaflokks fatlaðs fólks helstu skýringu hallarekstursins. Raunin er hins vegar sú að málaflokkurinn fór einungis 664 milljónir umfram fjárheimildir og nemur því aðeins um 5% af framúrkeyrslunni,“ sagði Hildur.

Hildur gefur rekstri borgarinnar ekki góða einkunn:

„Sannarlega hafa verðbólga og vaxtaumhverfi neikvæð áhrif á reksturinn, en stærsta framúrkeyrslan frá áætlunum snýr hins vegar að rekstrargjöldum, eða tæpir átta milljarðar. Útgjöld hafa á liðnum árum vaxið langt umfram tekjur, starfsmönnum fjölgar á ógnarhraða, lítil yfirsýn og rekstur í molum. Skuldir aukast og nær tíunda hver króna sem rennur í borgarsjóð fer í vexti og verðbætur.

Borgarsjóður (A-hluti) er með samþykkta 21 milljarða lántökuheimild árið 2023 sem ráðgert er að nýta með skuldabréfaútgáfum. Borgin hefur þegar gefið út skuldabréf sem nema rúmlega 4 milljörðum á þessu ári. Árið 2022 var samið um tvær lánalínur. Eina 6 milljarða lánalínu hjá Landsbanka sem var kláruð fyrir áramótin 2022, aðra 6 milljarða lánalínu hjá Íslandsbanka, en í ár hafa 3 milljarðar verið dregnir á hana.  Borgin þarf að klára lántökuheimildina (14 milljarðar) ef hún ætlar að standa undir afborgunum lána, lífeyrisskuldbindingum og fjárfestingum. Það verður því fróðlegt að fylgjast með framvindu útboðsins.“

Ekki er það traustvekjandi. Hvað er hægt að gera?

„Það eina sem hægt er að gera í þessari stöðu er að ráðast í bráðaaðgerðir svo bjarga megi rekstri borgarinnar. Ráðast þarf í umfangsmiklar hagræðingar, minnka þarf yfirbyggingu og leggja alla áherslu á öfluga grunnþjónustu. Jafnframt þarf að ráðast í eignasölu og skipulega niðurgreiðslu skulda, enda kostar það borgina stórfé að vera svo skuldsett,“ sagði Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: