- Advertisement -

ASÍ blæs á ríkisstjórnina

„Þessi stefnumörkun stjórnvalda styður á engan hátt við þau markmið sem sett voru fram í rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins, um bætt og breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga.“

Fjarri er að Alþýðusambandið sé eins glatt með ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og ráðherrar og þingmenn meirihlutans.

Miðstjórn ASÍ hefur ályktað um áætlunina. Þar segir:

„Miðstjórn Alþýðusambandsins gagnrýnir harðlega forgangsröðun í ríkisfjármálum sem fram kemur í þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2017-2021. Í áætluninni er hvorki að finna merki þess að efnahagsstefna stjórnvalda til næstu ára muni treysta efnahagslegan stöðugleika né undirbyggja félagslega velferð og aukinn jöfnuð í samfélaginu.“

Mun auka verðbólgu og hækka vexti

„Slaki í ríkisfjármálum samhliða vaxandi spennu í hagkerfinu og uppgangi á vinnumarkaði mun ýta undir ofþenslu og óstöðugleika og vinna gegn peningamálastefnunni. Það mun auka verðbólguþrýsting og hækka vexti,“ segir ennfremur í ályktun ASÍ.

„Samhliða þessu er misskipting aukin og dregið úr félagslegum stöðugleika með því að veikja mikilvæg stuðningskerfi á borð við barna- og húsnæðisbótakerfin. Brýnar velferðarumbætur eins og uppbygging félagslegs húsnæðiskerfis, innleiðing nýs húsnæðisbótakerfis og endurskoðun almannatrygginga eru án fullnægjandi fjármögnunar í áætluninni,“ segir þar einnig.

Byrðarnar enn lagðar á herðar launafólks

„Ekki er tryggð nauðsynleg fjármögnun á þjónustu heilbrigðiskerfisins og lækkun á gjaldtöku sjúklinga. Í allt of ríkum mæli byggir framtíðarsýn stjórnvalda í velferðarmálum á þeirri forsendu, að jöfnun byrða eigi að afmarkast við viðkomandi hópa. Þannig á að fjármagna þak á útgjöld til heilbrigðismála með hækkun á almenna þjónustu, fjármagna á félagslegt húsnæðiskerfi og húsnæðisbótakerfi með skerðingum á öðrum þáttum velferðarkerfisins og breytingar á almannatryggingakerfinu eiga í of ríkum mæli að fjármagnast með auknum tekjutengingum,“ segir ASÍ.

„Þessi stefnumörkun stjórnvalda styður á engan hátt við þau markmið sem sett voru fram í rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins, um bætt og breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Rammasamkomulag þessara aðila byggir á sameiginlegri ábyrgð á eflingu kaupmáttar byggðum á efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Verkalýðshreyfingin mun ekki sætta sig við að stjórnvöld skili auðu og leggi enn og aftur byrðarnar á herðar launafólks.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: