- Advertisement -

Á Íslandi búa þúsundir slæman við skort

Ráðherrann: Ég veit ekki annað en að það sé bara í góðum farvegi.

Guðmundur Ingi Kristinsson:
Hvað er verið að gera fyrir þennan hóp einstaklinga sem búa við að vera langt undir lágmarkstekjum og þola varanlegan skort?

„Það er auðvitað ágætt að hafa húsnæði en það dugir ekki eitt til. Fólk þarf að fá mat og hafa efni á lyfjum og klæðum,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson þegar hann tókst á við Ásmund Einar Daðason ráðherra á Alþingi.

Guðmundur Ingi hafði áður bent á að hér á landi hafi árið 2018 verið um 16.000 heimili með rúmlega 31.000 einstaklingum sem lifðu undir lágmarkstekjum. „Er það eðlilegt og sjálfsagt að 15.000 einstaklingar búi við skort og 3.000 við grafalvarlegan skort á efnislegum gæðum? Þarna eru þúsundir barna sem búa við verulegan skort á efnislegum gæðum, búa við ekkert annað en sárafátækt, og það á sama tíma og þeir ríku verða ríkari og ríkari. Í þessum hópi er fólk sem orðið hefur fyrir búsetuskerðingum. Nú skilst mér að það eigi ekki að leiðrétta það fyrr en eftir tvö ár. Er það rétt, hæstvirtur ráðherra? Hvað er verið að gera fyrir þennan hóp einstaklinga sem búa við að vera langt undir lágmarkstekjum og þola varanlegan skort?“

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ásmundur Einar Daðason:
Fyrst vil ég segja að mér fannst þingmaðurinn gera lítið úr mikilvægi þess að hafa húsnæði og þak yfir höfuðið.

Ásmundur Einar taldi upp eitt og annað sem hann segir ríkisstjórnina vera að gera í þessum efnum.

„Fyrst vil ég segja að mér fannst þingmaðurinn gera lítið úr mikilvægi þess að hafa húsnæði og þak yfir höfuðið vegna þess að það er eitt af því mikilvægasta sem hefur verið lagt upp með. Í upphafi þessa kjörtímabils var talað um að allt of hátt hlutfall af tekjum fólks og sérstaklega tekjulægstu hópanna færi í húsnæðiskostnað og þess vegna hefur ríkisstjórnin lagt megináherslu á húsnæðismálin í allri sinni vinnu með það að markmiði að horfa sérstaklega á þann hóp sem lægstar hefur tekjurnar og bágust kjörin í þessu samfélagi. Þar erum við komin með fjölmargar aðgerðir einmitt til þess að ná utan um það. Því lægra hlutfall sem fer í húsnæðiskostnað, þeim mun meira er til ráðstöfunar,“ sagði ráðherrann.

Og Ásmundur Einar er ekki alveg viss, ekki alveg:

„Varðandi búsetuskerðingar, sem líka var spurt um, hvort ætti ekki að leiðrétta þær fyrr en eftir tvö ár, þá veit ég ekki annað en að þar sé í gangi sú áætlun sem kynnt var á sínum tíma varðandi leiðréttinguna í kringum búsetuskerðingar, að eitthvað af því yrði leiðrétt strax en annað kæmi síðar vegna þess að það þyrfti að kalla eftir gögnum og kalla eftir upplýsingum. Ég veit ekki annað en að það sé bara í góðum farvegi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: