„Þannig á að leysa vanda ríkissjóðs með því að afnema mælikvarðana.“
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokks.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, var meðal ræðufólks á eldhúsdegi Alþingis í gærkvöld. Hér á eftir er hluti ræðu Guðrúnar:
„Í efnahagsmálum blasir þó við ábyrgðarleysi. Ríkisstjórnin talar um aðhald en gerir annað. Hún lofar að draga úr útgjöldum en ætlar að binda fimmtung ríkisútgjalda við launavísitölu. Þannig verða tugmilljarða króna útgjöld sjálfvirk án nokkurrar aðkomu Alþingis. Þetta er ekki ábyrgt. Þetta er afsalað vald, með lokuðum augum, frá þjóðkjörnum fulltrúum til ófyrirsjáanlegrar launaþróunar. Á sama tíma hyggst ríkisstjórnin hækka skatta á undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, skatta sem ekki byggja á raunverulegri afkomu heldur reiknaðri. Þetta er ekki aðeins ósanngjarnt, þetta er bein árás á samkeppnishæfni Íslands og þar með á framtíðarmöguleika ríkisins til tekjuöflunar.“
Hér er svo annar hluti ræðunnar:
„Ríkisstjórnin hefur í orði kveðnu sett sér það markmið að ná tökum á ríkisfjármálum, stöðva hallarekstur og skapa rými fyrir vaxtalækkanir. En verkin tala öðru máli. Þrátt fyrir hástemmd orð hefur ríkisstjórnin í raun slakað á aðhaldi og það einmitt þegar þörfin er hvað brýnust fyrir það. Þetta þýðir að stuðningur við peningastefnuna dregst saman. Þess í stað sjáum við áframhaldandi verðbólguþrýsting og vaxtabyrði sem heldur heimilum og fyrirtækjum í heljargreipum. Þetta er bein afleiðing ábyrgðarleysis í opinberum fjármálum. Forsendur ríkisstjórnarinnar um rekstrarafgang eru því miður ekki trúverðugar. Það hefur hvorki verið kynnt hvernig útgjöld verða dregin saman né hvernig skuli forgangsraða. Í stað þess að kynna raunhæfar aðgerðir er boðuð enn meiri útgjaldaaukning, ekki síst með beintengingu bóta við launavísitölu sem við höfum nú þegar varað við. Það sem verra er; á sama tíma og ríkisstjórnin lýsir því yfir að tryggja eigi stöðugleika leggur hún til að töluleg viðmið um lækkun skulda verði felld úr lögum um opinber fjármál. Þannig á að leysa vanda ríkissjóðs með því að afnema mælikvarðana. Það er ekki fjármálastefna, virðulegi forseti, það er ábyrgðarleysi.“
Hér er hægt að lesa alla ræðu Guðrúnar.