- Advertisement -

Aðför að hinu frjálsa Interneti

Slíkt er ekkert annað en ritskoðun Internetsins.

Björn Leví Gunnarsson skrifar:

Þingflokkur Pírata mun beita sér gegn því að nýsamþykkt höfundarréttartilskipun Evrópusambandsins verði tekin upp í EES- samninginn óbreytt.

Höfundarréttartilskipunin sem samþykkt var á Evrópuþinginu felur í sér varhugaverða aðför að hinu frjálsa og opna Interneti. Tilskipunin felur í sér hertar kröfur um notkun og miðlun fréttaefnis á Internetinu og einnig er þjónustuveitum á borð við Facebook, Google, Youtube og í raun meginþorra vefsíðna sem leyfa notendum að hlaða upp efni, gert að ritskoða það efni sem birtist hjá þeim til að tryggja að höfundarréttarvarið efni birtist ekki á síðum þeirra. Slíkar sjálfvirkar síur eru ónákvæmar og tæknin enn ófullkomin sem mun leiða til þess að þjónustuveitendur munu sía út meira magn af efni en minna til að baktryggja sig fyrir lögsóknum. Slíkt er ekkert annað en ritskoðun Internetsins og ljóst að fjölmörg fyrirtæki muni ekki geta staðið undir þessum kröfum nema þau allra fjársterkustu. Mun þetta leiða til þess að minni þjónustuveitur leggjast af og mjög erfitt verður að stofna nýjar þjónustuveitur á Internetinu.

Með því að láta fyrirtæki bera ábyrgð á því efni sem birtist, í stað þess að ábyrgðin sé aðeins notendanna, er verið að takmarka frelsi íbúa Evrópu til að tjá sig. Líkja mætti þessu við að símafyrirtæki á Íslandi yrðu skikkuð til að hlera öll símtöl til að tryggja að aðeins þóknanlegar upplýsingar kæmust á milli manna.

Julia Reda, Evrópuþingmaður Pírata og helsti talsmaður gegn þessari lagasetningu, hefur verið óþreytandi í baráttunni gegn frekari ritskoðun Internetsins og standa Píratar á Íslandi þétt við bakið á henni í þessari baráttu. Er hún fremst í flokki hundraða sérfræðinga og tuga stofnana sem hafa mótmælt þessari vegferð, þar á meðal David Kaye, sérstaks talsmanns Sameinuðu þjóðanna um vernd tjáningarfrelsis, og Tim Berners-Lee, föður veraldarvefsins.

Internetið er ekki staðbundið. Við sem Íslendingar notum mikið af þjónustu, fréttamiðlum og öðru frá fyrirtækjum sem staðsett eru í Evrópu. Það er því nauðsynlegt að berjast gegn hvers kyns ritskoðun og takmörkun á tjáningarfrelsi sem er hornsteinn frjálsra lýðræðisríkja.

Fyrirsögnin er Miðjunnar.





Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: