- Advertisement -

Ætla að endurtaka ósómann á Alþingi

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati tók þátt í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra.

„Þegar forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni að þótt hlutverk stjórnmálamanna væri fyrst og fremst að hugsa um samfélagið í heild skipti máli að hugsa um örlög hvers og eins þá hljótum við að spyrja okkur hvers vegna örlög egypsku barnanna sem vísa átti úr landi skiptu hana engu máli. Þegar hún var spurð um örlög þessara barna sagði hún að hún skipti sér ekki af einstaka málum, þetta væri ekki fyrsta brottvísunin og að við tækjum ekki á móti öllum börnum sem hingað leita í átt að vernd og að verkefni stjórnmálanna sé að byggja upp mannúðlegra kerfi frekar en að grípa inn í einstök mál,“ sagði Þórhildur Sunna.

„En eina framlag hennar til þessa mannúðlega kerfis eru síendurteknar og ómannúðlegar tilraunir til að veikja réttarstöðu flóttamanna og barna og auðvelda brottvísanir þeirra í formi frumvarps sem við Píratar og aðrir í stjórnarandstöðunni höfum þurft að stöðva aftur og aftur með mikilli fyrirhöfn. Og aftur stendur til að flytja þennan ósóma í þessu húsi. Má ég þá frekar biðja um að stjórnarliðið geri sem minnst eins og þau gera í hvert einasta skipti sem útkeyrður þingmaður þeirra í Suðurkjördæmi hjólar í hælisleitendur á Facebook,“ sagði Þórhildur Sunna.

„Kannski voru stærstu mistök egypsku barnanna að hafa ekki bara sent tölvupóst á hæstvirtan sjávarútvegsráðherra því að hann virðist a.m.k. ekki hika við að beita sér í einstökum málum og redda reglugerðum fyrir ráðvillta hvalveiðimenn eða kannski voru stærstu mistök þeirra að vera bara börn en ekki moldríkir útvegsmenn sem greiða hámarksstyrki til Sjálfstæðisflokksins.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: