- Advertisement -

Af hverju er Seðlabanki Íslands öðruvísi en allir aðrir seðlabankar? OFTRÚ Á FALLNA (dellu)KENNINGU

Flestir seðlabankar eru með lága, jafnvel neikvæða stýrivexti.

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Kann einhver að skýra hvers vegna vaxtastefna íslenska Seðlabankans sker sig svo frá vaxtastefnu annarra seðlabanka? Í orði kveðnu miða flestu seðlabankar í okkar heimshluta við verðbólgumarkmið, en það er tíska sem sló í gegn á síðasta áratug síðustu aldar og breiddist hratt út.

Kenningin var fylgifiskur nýfrjálshyggjulegrar efnahagsstjórnar og hafði helst þau áhrif að umræða um tekjuskiptingu hvarf í skuggann; verkalýðshreyfingin og arftakar hinna sósíalísku flokka féllust á að það væri sameiginlegt markmið launafólks, fyrirtækjaeigenda og stjórnvalda að halda verðbólgu sem næst einskonar „náttúrulegum“ mörkum, sem voru fundin út með skoðun á verðbólgu-, hagvaxtar- og launasveiflum á áttunda áratugnum, þegar olíukreppan kveikti verðbólgubál og víxlverkun launa og verðlags reyndi mjög á efnahagskerfi Vesturlanda. Kenningin var að hægt sé að finna náttúrulega stöðu í hagkerfinu sem tryggir að það virkar sem best; ef verðbólga er temmileg og ef atvinnuleysi er temmilegt þá muni hagkerfið skila mestum „eðlilegum“ hagvexti og með tímanum bættum með því lífskjörum fyrir alla. Við þekkjum áhrifin af þessu; krafan um réttlæti hvarf úr pólitíkinni og stéttaátökin úr stéttabaráttunni; eftir stóð sameiginlegt markmið verkalýðshreyfingar, fjármagns- og fyrirtækjaeigenda, stjórnmálaflokka og allra helstu stofnana samfélagsins um að halda verðbólgu niðri. Ef það tækist ætti ný Jerúsalem að síga niður af himnum. Það var til þessa jafnvægi sem Alan Greenspan seðlabankastjóri vísaði til þegar hann hélt því fram að líklega væri hann og aðrir Seðlabankamenn búnir að finna jafnvægið í kapítalismanum svo hann gengi til eilífðar nóns eins og smurð vél öllum til heilla.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Auðvitað var þetta tómt rugl í Greenspan, hann reyndist ekki sá spámaður sem fólk vildi trúa heldur hættulegur kjáni.

Auðvitað var þetta tómt rugl í Greenspan, hann reyndist ekki sá spámaður sem fólk vildi trúa heldur hættulegur kjáni, hættulegur vegna þess að honum hafði verið færð mikil völd sem ekki höfðu aðeins stórskaðleg áhrif á efnahagskerfið, fluttu stórkostlega fjármuni frá þeim sem áttu lítið eða ekkert til þeirra sem áttu mikið og eignuðust sífellt meira; heldur lamaði þessi kjánalega trú Grennspan og félaga í raun alla samfélagsmótun; sú skoðun varð ofan á að samfélagið væri sigurverk sem við gætum ekki haft áhrif á og ættum ekki að hafa áhrif á og því væri öll umræða um samfélagslegt réttlæti einskonar misskilningur, að krefjast réttlætis innan hins stjórnmálalega vettvangs væri eins og að biðja um léttsöltuð ýsuflök í efnalaug. Réttlæti væri einfaldlega ekki á matseðlinum; aðeins stöðugleiki og temmileg verðbólga.

Þessi sýn Greenspan og félaga er löngu fallin, líka nýfrjálshyggjan og allur sá hugmyndaheimur sem var ríkjandi á áratugunum fyrir Hrun. Samt lifa tækin, sem þetta tímabil bjó til. Og þau halda áfram að malla; sömu tækin og við áttum að trúa að hefðu í reynd gert réttlætis- og stéttabaráttu óþarfa og gert samræður um hvernig samfélag við vildum byggja upp óþarfar. Samkvæmt kenningum nýfrjálshyggjutímans byggjum við ekki upp samfélag; það byggist upp ef við látum vera að hugsa um það; grillum á kvöldin, svo vitnað sé í einn af al mestu kjánum þessa tímabils. En þó við vitum að kenningin sé fallin og að hún er í raun andsamfélagsleg dómsdagsmaskína þá halda tæknin samt áfram að malla.

Í orði kveðnu hafa flestir seðlabankar í okkar heimshluta enn verðbólgumarkmið sem grunn peningamálastefnunnar. Ég segi í orði kveðnu, því auðvitað veit fólk eftir Hrun að þetta er í reynd heimskulegt markmið. Vandinn er sá að fólk veit ekki hvað ætti að koma í staðinn. Hugmyndakerfi nýfrjálshyggjunnar er fallið, en það veit enginn hvað tekur við. Þess vegna halda seðlabankar áfram með verðbólgumarkmiðin, en nú án þess að trúa blint á þau. Flestir bankanna setja stýrivexti svo lágt að þeir bera neikvæða raunvexti. Enda er verðbólga ekki vandamál í okkar heimshluta og hefur ekki verið lengi. Flestir seðlabankar eru með lága, jafnvel neikvæða stýrivexti. Við þurfum að fara til Rússlands, Hvíta Rússlands og Úkraínu til að finna hærri stýrivexti en á Íslandi, en í þessum löndum er verðbólgan yfir 5%, í Úkraínu 7,3%.

En þetta eru ekki lönd sem fólk horfir til um vellukkaða peningamálastjórn. Ef við tökum fyrsta heims löndin þá eru stýrivextir seðlabankanna þessir:

  • Ísland: 4,50%
  • Bandaríkin: 2,25
  • Nýja Sjáland: 1,75%
  • Kanada: 1,75%
  • Ástralía: 1,50%
  • Noregur: 1,00%
  • Bretland: 0,75%
  • Danmörk: 0,05%
  • Evrusvæði: 0,00%
  • Japan: -0,10%
  • Svíþjóð: -0,25%
  • Sviss: -1,25%

Ísland sker sig þarna úr, er með tvöfalt hærri vexti en næsta land. 22falda vexti á við meðaltal Norðurlandanna. Og er ástæðan sú að hér sé verðbólga svona miklu hærri en annars staðar? Verðbólga er vissulega hæðst á íslandi, en það munar ekki miklu. Svona er verðbólgan í þessum löndum (samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum):

  • Ísland: 2,6%
  • Ástralía: 2,3%
  • Kanada og Bretland: 2,2%
  • Bandaríkin: 2,1%
  • Noregur: 2,00%
  • Nýja Sjáland, Danmörk og Svíþjóð: 1,70%
  • Evrusvæðið og Sviss: 1,40%
  • Japan: 1,30%

Til að sýna sérstöðu íslensku peningamálanefndarinnar getum við borið saman raunvexti stýrivaxtanna, hver ávöxtun þeirra eru miðað við verðbólguna. Svona lítur það út:

  • Ísland: 1,85%
  • Bandaríkin 0,15%
  • Nýja Sjáland: 0,05%
  • Kanada -0,44%
  • Ástralía -0,78%
  • Noregur -0,98%
  • Evrusvæðið og Japan: -1,38%
  • Bretland -1,42%
  • Danmörk -1,62%
  • Svíþjóð -1,92%
  • Sviss -2,61%

Nýja Sjáland og Bandaríkin eru með vexti nánast stillta á núll ávöxtun, en öll hin löndin á neikvæða raunávöxtun, Sviss með mínus 2,6%. Ísland sker sig algjörlega út úr hópnum með 1,8% raunávöxtun á stýrivöxtum Seðlabankans.

Eru rökin þá þau að öll hin löndin glími við efnahagssamdrátt sem neikvæðum vöxtum er ætla að efla? Svona er hagvöxturinn í þessum löndum (upplýsingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, áætlaður hagvöxtur þessa árs):

  • Nýja Sjáland: 3,0%
  • Ísland: 2,9%
  • Ástralía: 2,8%
  • Bandaríkin: 2,5%
  • Svíþjóð: 2,2%
  • Noregur: 2,1%
  • Kanada: 2,0%
  • Danmörk: 1,9%
  • Sviss: 1,8%
  • Bretland: 1,5%
  • Evrusvæðið: 1,0%
  • Japan: 0,9%

Ísland er vissulega næstefst á listanum þegar miðað er við hagvöxt, en munurinn á Íslandi, Nýja Sjálandi og Ástralíu og hinum löndunum er ekki svo afgerandi að það réttlæti gerólíka peningamálastefnu á Íslandi. Stýrivextir eru 1,75% á Nýja Sjálandi og 1,5% í Ástralíu, samanlagt að meðaltali aðeins um þriðjungur af vöxtum Seðlabanka Íslands.

Hver er hin séríslenska peningamálastefna? Hvers vegna kalla verðbólgumarkmiðin hér á svívirðilega vexti en ekki annars staðar? Er hér um að ræða enn eina séríslensku leiðina, heimóttarlega nálgun lítils þorp sem er að reyna að bera sig mannalega?

Þarf ekki að fá útlenda sérfræðinga til að gera úttekt á peningamálanefnd Seðlabankans? Það skiptir máli að þau fimm sem ákvarða stýrivexti geri það samkvæmt viðurkenndum og almennum aðferðum en séu ekki föst í díki fallinna kenninga.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: