- Advertisement -

Áhugaleysi um minningu Jónasar

Valgerður Gunnarsdóttir.

Valgerður Gunnarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, vekur athygli á að ekki hafi verið staðið við samþykktar áætlanir um uppbyggingu að Hrauni Öxnadal.

„Hinn 31. maí 2017 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um Hraun í Öxnadal sem finna má í þingskjölum. Síðan hefur ekkert gerst þrátt fyrir fyrirspurnir hér á Alþingi. Ég tel tímabært að minna á þessa þingsályktun í þeirri von að núverandi mennta- og menningarmálaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra taki ályktunina úr skúffum sínum henni til framgangs,“ sagði hún á Alþingi í dag.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er með eindæmum að minningu Jónasar Hallgrímssonar skuli ekki hafa verið gert hærra undir höfði af hálfu íslenska ríkisins.

Hinn 26. maí 2003 var menningarfélagið Hraun ehf. stofnað. Það sama ár var jörðin Hraun í Öxnadal keypt. Samkvæmt samþykktum félagsins er tilgangurinn m.a. að reka fræðasetur að Hrauni í Öxnadal tengt minningu Jónasar Hallgrímssonar, kynna verk, líf og starf skáldsins og náttúrufræðingsins. Frá upphafi hefur menningarfélagið staðið að og tekið þátt í fjölbreyttri menningarstarfsemi. Fífilbrekkuhátíð er haldin á hverju sumri og haldin hafa verið málþing, Jónasarvaka o.fl.

„Til ársins 2011 fékk menningarfélagið Hraun framlag á fjárlögum sem varð grundvöllur að uppbyggingu á staðnum. Árið 2016 fékk félagið 5 millj. kr. á fjárlögum sem gerði félaginu kleift að ráðast í nauðsynleg viðhaldsverkefni. Hörgársveit hefur gert samning við félagið og styrkt starfsemi þess árlega. Stjórn félagsins gekkst fyrir opnum stefnumótunarfundi í liðinni viku. Þar kom fram skýr vilji um öfluga uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal, fæðingarstað þjóðskáldsins, sem skipar líka stóran sess í hugum Íslendinga vegna einstakrar náttúrufegurðar, með Hraundranga sem höfuðtákn. Hraun skal vera menningarsetur þar sem framlag Jónasar til íslenskrar tungu, náttúrufræði og stjórnmála skal heiðrað og miðlað.

Það er með eindæmum að minningu Jónasar Hallgrímssonar skuli ekki hafa verið gert hærra undir höfði af hálfu íslenska ríkisins. Ég skora á hlutaðeigandi ráðherra að láta til sín taka og heiðra minningu þjóðskáldsins með öflugri uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: