- Advertisement -

Allir ríkisstjórnir með Bjarna innanborðs hafa sprungið vegna hneykslismála

…að miða eigi pólitískan stöðugleika við þolið gagnvart Bjarna…

Gunnar Smári skrifar:

Það var ekki algengt áður en Bjarni Benediktsson sneri sér að pólitík að ríkisstjórnir á Íslandi spryngju vegna hneykslismál. En frá því hann komst í ríkisstjórn hafa allar ríkisstjórnir sprungið vegna hneykslismála. Og það gerist þannig að upp kemur hneyksli og sá sem tengist því neitar að víkja, kýs frekar að stjórnin leysist upp.

Fyrst þegar Bjarni fór í ríkisstjórn sprakk stjórnin vegna Panamaskjalanna, þar sem kom fram að bæði hann og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknar, höfðu notað skattaskjól til að komast hjá skattgreiðslum. Sigmundur sagði af sér en Bjarni ekki og boðað var til kosninga stuttu síðar.

Næst myndaði Bjarni ríkisstjórn sem sprakk…

Næst myndaði Bjarni ríkisstjórn sem sprakk þegar í ljós kom að Bjarni hafði haldið upplýsingum frá þingheimi og ríkisstjórn um að faðir hans var einn þeirra sem lýst höfðu mannkostum barnaníðinga svo þeir fengu uppreisn æru, stuðlað að því að strokað væri yfir brot þeirra.

Í kosningunum sem haldnar voru í framhaldinu setti sýslumaður Sjálfstæðisflokksins lögbann á umfjöllun um fjármálavafstur Bjarna fyrir Hrun, sem einkenndist af vafasömum gjörningum, skuldaniðurfellingum og klíkuskap.

Þá myndaði Bjarni þá ríkisstjórn sem nú situr og hefur verið við völd í gegnum farsótt og efnahagslægð og atvinnuleysi sem henni hefur fylgt. Engin ríkisstjórn hefur skert frelsi almennings eins og þessi, bannað listviðburði og samkomur, meinað fólki að kveðja ástvini við jarðarfarir og að halda upp á fermingar, útskriftir, giftingar o.s.frv. Nú riðar þessi stjórn til falls út af Bjarna. Hann gat ekki neitað sér um að skella sér í auðmannapartí á Þorláksmessu.

…að halda Bjarna Benediktssyni frá völdum og almannaþjónustu.

Auðvitað er það ekki svo að allt verði gott þegar Sjálfstæðismenn loks gefast upp á Bjarna eða þegar forysta þeirra flokka sem leiðst hafa út í samstarf við hann átta sig á að það er ekki verjandi lengur. En brotthvarf Bjarna úr stjórnmálum er samt forsenda þess að hér geti orðið til heilbrigð stjórnmálamenning. Það mun ekki verða meðan forysta nokkurra stjórnmálaflokka verja tilvist Bjarna í almannaþjónustu, manns sem fyrir löngu er búinn að sanna að hann veldur ekki því hlutverki.

Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð var yfirlýst markmið hennar að skapa það sem kallað var pólitískur stöðugleiki. Frumforsenda þess að slíkt markmið næðist var auðvitað að halda Bjarna utan stjórnar. En metnaður Katrín Jakobsdóttur var að hún gæti það sem engum hafði tekist, að halda úti ríkisstjórnarsamstarfi með Bjarna Benediktsson innan ríkisstjórnar. Þessi metnaður hefur kostað VG mannorðið og meirihlutann af fylginu. Að baki þessu er einhver meinloka; að miða eigi pólitískan stöðugleika við þolið gagnvart Bjarna Benediktssyni þegar frumforsenda pólitísks stöðugleika er akkúrat þveröfug; að halda Bjarna Benediktssyni frá völdum og almannaþjónustu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: