- Advertisement -

„Alþingi barst neyðarkall“

„Hvað er það sem mögulega getur útskýrt þá pólitísku afstöðu og þær pólitísku aðgerðir að fara gegn samkeppni á verðbólgutímum?“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

„Alþingi barst neyðarkall í síðustu viku frá Samkeppniseftirlitinu. Skilaboðin eru skýr: Samkeppniseftirlitið getur ekki lengur sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Það hefur verið svo kerfisbundið veikt af þeim flokkum sem sitja núna saman í ríkisstjórn að það hefur ekki lengur burði til þess. Framlög á næsta ári verða 20% minni að raunvirði en fyrir áratug síðan, en á þessum sama tíma hafa umsvif hagkerfisins aukist um 40%. Eftirlitið segist þurfa að fjármagna sig fyrir um 40 stöðugildi en nýtur fjármagns fyrir 25 í dag,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn.

„Aðrar þjóðir hafa markvisst styrkt samkeppnislega innviði sína núna til að berjast gegn verðbólgu og verja þannig hagsmuni heimila. Efling Samkeppniseftirlitsins núna er eðlileg aðgerð og skynsamleg aðgerð, sérstaklega í verðbólguástandinu. Ríkisendurskoðun lagði í fyrra til aðgerðir og fjárheimildir til að styrkja þessa samkeppnisinnviði en ríkisstjórnin fer núna harkalega gegn þessum ráðleggingum. Verkalýðshreyfingin hefur verið skýr um mikilvægi samkeppni og samkeppnisinnviða fyrir fólkið í landinu og það er viðbúið að þetta útspil ríkisstjórnarinnar núna verði tekið fyrir á kjarasamningsborðinu.“

Næst sagði Þorbjörg:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Í sameiginlegri niðurstöðu í sameiginlegri grein frá hagfræðingum þriggja heildarsamtaka á vinnumarkaði með samanlagt 175.000 félagsmenn, segja þeir, með leyfi forseta:

„Veiking samkeppniseftirlits þjónar helst hagsmunum þeirra fyrirtækja sem eru í stöðu til að nýta sér fákeppni til að skara eld að eigin köku. Þótt Samkeppniseftirlitið á Íslandi sé ekki hafið yfir gagnrýni, þá liggur lausnin ekki í því að veikja það eins og sumir atvinnurekendur vilja, heldur að styrkja það og efla það til að standa vörð um samfélagslega hagsmuni.“

Hvers vegna hunsar ríkisstjórnin þetta neyðarkall Samkeppniseftirlitsins? Hvers vegna vill ríkisstjórnin veikja innviði samkeppni í landinu í aðdraganda kjarasamninga og taka stöðu gegn hagsmunum neytenda? Hvað er það sem mögulega getur útskýrt þá pólitísku afstöðu og þær pólitísku aðgerðir að fara gegn samkeppni á verðbólgutímum?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: