- Advertisement -

Alþingi: Harðari reglur um flóttafólk

Í síðarnefndum hópi er í fyrsta lagi fólk frá öruggum upprunaríkjum.

Alþingi ræðir, á þingfundi í dag frumvarp Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um útlendinga.

Ástæðan er aukinn straumur flóttafólks.

„Nú er svo komið að stjórnsýslan ræður ekki við að afgreiða umsóknir innan ásættanlegs tíma og kostnaður við framfærslu umsækjenda um alþjóðlega vernd vex hröðum skrefum. Í grunninn má segja að fyrir því séu tvær meginástæður,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum
„Nú er svo komið að stjórnsýslan ræður ekki við að afgreiða umsóknir innan ásættanlegs tíma.“

„Í fyrsta lagi hefur fjölgað nokkuð í hópi þeirra sem hingað leita eftir vernd frá stríðshrjáðum löndum, ekki síst Írak og Afganistan.

Í öðru lagi hefur þeim sem sækja hér um alþjóðlega vernd fjölgað umtalsvert á ný þrátt fyrir að vera ekki á flótta undan ofsóknum í sínu upprunaríki.

Í síðarnefndum hópi er í fyrsta lagi fólk frá öruggum upprunaríkjum, í öðru lagi fólk sem ber samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni að sækja um og fá niðurstöðu um sínar umsóknir um vernd í öðru Evrópuríki eða hefur jafnvel þegar sótt um alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki og í þriðja lagi fólk sem þegar hefur fengið stöðu flóttamanns í Evrópu en kýs að koma hingað til lands og sækja um alþjóðlega vernd á nýjan leik.

Ástæða þykir til að bregðast við þessari fjölgun með því að styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar og einfalda málsmeðferð umsókna þegar umsækjandi hefur þegar hlotið alþjóðlega vernd svo að auka megi skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma.“

„Er því meðal annars lagt til að skýrt verði kveðið á um að beita skuli Dyflinnarreglugerðinni þegar þess er nokkur kostur, mælt fyrir um sjálfkrafa kæru í málum sem þessum, lagt til að kæra fresti ekki réttaráhrifum ef umsækjanda um alþjóðlega vernd hefur verið synjað um efnislega meðferð á þeim grundvelli að hann hafi þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki, auk þess sem tilefni þykir til að hverfa frá þeirri framkvæmd að umsóknir einstaklinga sem þegar hafi hlotið alþjóðlega vernd séu teknar til efnislegrar meðferðar á grundvelli undantekninga 2. mgr. 36. gr. um sérstök tengsl og sérstakar ástæður.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: