- Advertisement -

Alþýðubylting er eina leiðin

Kröfur almennings urðu því aldrei það leiðarljós sem leiddi uppbyggingusamfélagsins, eins og raunin varð á Norðurlöndum.

Gunnar Smári.


Gunnar Smári skrifar:   Til að fullmóta lýðveldið Ísland þarf fleiri alþýðubyltingar. Ísland sker sig frá hinum Norðurlöndum að því leyti að stjórnmálaflokkar, sem rætur eiga í verkalýðshreyfingunni, baráttutækjum alþýðunnar, náðu aldrei völdum á síðustu öld. Þessir flokkar komust ekki í meirihluta fyrr en eftir Hrun 2008, sem markaði gjaldþrot nýfrjálshyggjunnar, en þeir voru þá búnir að gleyma erindi sínu og höfðu gert nýfrjálshyggjuna að grunni stefnu sinnar. Kröfur almennings urðu því aldrei það leiðarljós sem leiddi uppbyggingusamfélagsins, eins og raunin varð á Norðurlöndum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Uppreisnin innan kirkjunnar á Íslandi einskorðaðist við iðnaðarmenn í Reykjavík, sem sættust ekki á að sitja út í kirkjuskipinu á meðan danskir kaupmenn sátu í kórnum á dómkirkjunni.

Á Norðurlöndunum voru gerðar fleiri alþýðubyltingar; almúginn felldi embættismannakirkju valdastéttarinnar og tók völdin innan kirkjunnar; bjó til það sem kallast leikmannakirkjur, þar sem presturinn er einn af söfnuðinum en talar ekki yfir hann. Uppreisnin innan kirkjunnar á Íslandi einskorðaðist við iðnaðarmenn í Reykjavík, sem sættust ekki á að sitja út í kirkjuskipinu á meðan danskir kaupmenn sátu í kórnum á dómkirkjunni; iðnaðarmennirnir klufu sig frá þjóðkirkjunni, stofnuðu fríkirkjuna og fóru að leita að eilífu lífi hjá dánu fólki.

Á Norðurlöndunum var verkalýðshreyfingin sameinuð undir kröfum sósíalista á meðan að hægri sinnaðir þjóðernissinnar í Sjálfstæðisflokknum náðu undir sig um þriðjungi hreyfingarinnar hér svo gera þurfti málamiðlanir við þá; okkar eftirlaunakerfi og húsnæðiskerfi varð fyrst og fremst hægri lausnir, eignar- og einkakerfi, en ekki félagslegar lausnir, samhjálp og samstaða.

Skástu samfélögin í okkar heimshluta mótuðust á síðustu öld af auknu afli verkalýðshreyfingarinnar sem magnaðist upp með útvíkkun kosningaréttar í byrjun aldarinnar, þegar konur og fátækir karlar fengu að kjósa og síðan yngra fólk. Þetta leiddist til valdasviptinga, áherslur fluttust frá auðvaldi og valdastéttum, sem litu á ríkið sem tæki til að verja eignarétt sinn og halda óvinum sínum niðri, innan og utan ríkisins, og yfir til alþýðunnar, sem leit á ríkið sem tæki til að tryggja almennan jöfnuð og velsæld, færa öllum borgurum réttindi og frelsi, ekki aðeins hinum allra best settu.

Kerfið er að koðna niður innan frá; ógnin er ekki að utan nema að litlu leyti; lýðræðiskerfið er að umbreytast í óskapnað sem er ógn við almenning – og lýðræðið.

Síðustu áratugi höfum við fjarlægst þessi markmið. Þegar nýir hópar kjósenda hættu að bætast við náði auðvaldið og valdastéttirnar aftur tökum á samfélaginu og tókst að sníða grunnkerfi þess að sínum hagsmunum. Við lifum hnignun lýðræðis, hinn pólitíski vettvangur tekur æ minna tillit til hagsmuna og væntinga lýðsins; lýðurinn kýs sér yfirvald fremur en fulltrúa til að fylgja eftir vilja sínum. Þetta á ekki aðeins við um Ísland, þar sem engu skiptir hvort mikill meirihluti fólks sé fylgjandi stjórnarskrá, opinberu heilbrigðiskerfi, hækkun veiðigjalda og skatta á efnafólk eða andstæð orkupakka; þingmenn fylgja línunni frá hinum fáu en ekki fjöldanum; heldur á þetta við um allan okkar heimshluta. Lýðræðiskerfi tuttugustu aldar er að koðna niður, virk þátttaka almennings er að hverfa og fámennar klíkur hafa tekið yfir flokka og hreyfingar og þar með lýðsræðisvettvanginn, eina varnartæki almennings gagnvart auðvaldinu. Kerfið er að koðna niður innan frá; ógnin er ekki að utan nema að litlu leyti; lýðræðiskerfið er að umbreytast í óskapnað sem er ógn við almenning – og lýðræðið.

Eina leiðin gegn þessari hnignun er alþýðubylting, ekki bara á þingi og í sveitastjórnum heldur um allt samfélagið, í öllum stofnunum þess; verkalýðsfélögum og öðrum almannasamtökum, mennta- og heilbrigðiskerfinu, innan fyrirtækja. Þegar hópur hefur tapað áttum þarf hann að leita upphafsins, hver var vonin sem dró okkur áfram. Það var vonin um betra líf og gott samfélag sem byggði upp allt sem gott er í samfélagi okkar, réttlæti og öryggi, jöfnuð og frelsi allra – ekki bara þeirra sem hafa efni á slíku.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: