- Advertisement -

Alþýðusambandið á uppleið

Almennt er konur jákvæðari í garð ASÍ en karlar, yngsti og elsti aldurshópurinn jákvæðari en fólk á miðjum aldri og þeir sem eru með lægri tekjur eru jákvæðari en hinir sem hafa hærri tekjur.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands.

„Í nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir ASÍ og mælir viðhorf almennings til Alþýðusambandsins má sjá miklar breytingar afstöðu milli ára. Þannig telja 56% að ASÍ sinni hlutverki sínu vel en þegar spurt var í fyrra voru aðeins aðeins 25% þeirrar skoðunar. Nú telja 13,5% ASÍ standa sig illa en sambærileg tala frá því í fyrra var 38%,“ segir á vef ASÍ, asi.is.

„Þegar spurt var um jákvæðni eða neikvæðni gagnvart ASÍ sögðust 55% vera jákvæð. Reglulegar skoðanakannanir sýna að aðeins einu sinni á síðustu 19 árum hafa fleiri verið jákvæðir í garð sambandsins en það var í maí árið 2005. 10% sögðust vera neikvæð gagnvart ASÍ í þessari könnun en hlutfall neikvæðra var þrefalt hærra í fyrra, eða 30%.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Trúverðugleiki málflutnings ASÍ eykst einnig milli ára.

Traust til ASÍ hefur einnig vaxið mikið frá því í fyrra. Nú segjast 48% treysta Alþýðusambandinu og eykst traustið um heil 26 prósentustig frá sambærilegri könnun á síðasta ári. Þegar þessi traustmæling er borin saman við traust til stofnana úr Þjóðarpúlsi Gallup þá sést að traust til Alþýðusambands Íslands er svipað og traust til Ríkissáttasemjara og dómskerfisins. 15% sögðust bera lítið traust til ASÍ í þessari könnun en í fyrra var sambærilegt hlutfall 36%.

Trúverðugleiki málflutnings ASÍ eykst einnig milli ára, 60% telja hann mikinn nú en í fyrra voru 36% þeirrar skoðunar. 15% telja málflutning ASÍ ótrúverðugan en það hlutfall var 32% í fyrra.

Almennt er konur jákvæðari í garð ASÍ en karlar, yngsti og elsti aldurshópurinn jákvæðari en fólk á miðjum aldri og þeir sem eru með lægri tekjur eru jákvæðari en hinir sem hafa hærri tekjur.

Þegar spurt var um stéttarfélagsaðild kom í ljós að um og yfir 90% þeirra sem eru virkir á vinnumarkaði eiga aðild að stéttarfélagi og er þátttakan mest meðal ungs fólks.

Gallup gerði viðhorfskönnunina fyrir ASÍ dagana 9. – 21. maí 2019. 
Úrtakið var 1538 manns af landinu öllu, 18 ára og eldri og var þátttökuhlutfallið 56,2%.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: