Sigurður Ingi hélt ræðu í gæærkvöld. Hann sagði til dæmis þetta:
Mér fannst og finnst við lestur þingmálaskrár og stefnuræðu forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar að þar skorti verulega skilning á mikilvægi atvinnulífsins, ekki síst úti um land. Við í Framsókn munum standa vörð um atvinnumál um allt land, um auðlindirnar, um fullveldið.
Andlandsbyggðarstefna ríkisstjórnarinnar birtist t.d. í hugmyndum um að stórhækka skattlagningu á sjávarútveginn sem mun ekki síst bitna á minni og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum í sjávarútvegi og hvetja til enn frekari samþjöppunar. Og hver er eiginlega stefna ríkisstjórnarinnar varðandi íslenskan landbúnað? Samkvæmt þingmálaskrá á að taka af sjálfsagðan rétt bænda til samstarfs í eigin fyrirtækjum, rétt sem allir bændur í allri Evrópu hafa, taka fram fyrir hendur æðsta dómstól landsins sem hefur málið til umfjöllunar. Og eru það almannahagsmunir að ganga erinda heildverslunar í að breyta réttri skilgreiningu á því hvað er ostur og lækka toll á innfluttar iðnaðarafurðir sem eru í samkeppni við innlenda hreina matvælaframleiðslu? Nei, það er sérhagsmunagæsla.
Virðulegi forseti. Í viðsjárverðum heimi er ekki eitt orð um fæðuöryggi í stefnuræðu forseta eða þingmálaskrá. Og hver er stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum ferðaþjónustunnar? Hringl í skattheimtuhugmyndum. Það hjálpar ekki samkeppnishæfni eða aukinni verðmætasköpun eða uppbyggingu ferðaþjónustunnar um allt land allt árið.