- Advertisement -

Andstyggileg andmannúðarstefna

Gunnar Smári skrifar: Ég var að reikna aðeins upp úr lista Stundarinnar yfir 330 tekjuhæstu einstaklinganna árið 2016, 0,1 prósentið sem hafði mestar tekjur. 86,4% af tekjum þessa fólks voru fjármagnstekjur sem bera miklu lægri skatta en launatekjur. Ætla má að þetta fólk hafi aðeins greitt samtals 18,8 milljarða króna í skatta af 60,8 milljarða tekjum eða um 22,6%. Það er álíka skattbyrði og fólk með 400 þús. kr. á mánuði bar 2016. Meðaltekjur þessara 330 í tekjuhæsta 0,1 prósentinu voru hins vegar 15,4 m.k.r á mánuði, nærri 40 sinnum meira en þau sem voru með 400 þús. kr. og sama skatthlutfall. Sá tekjuhæsti var með 66 5sinnum hærri tekjur en fólkið með 400 þúsund kallinn en sá borgaði bara 20% skatt.

Fengu 12,8 milljarða skattaafslátt

Miðað við tekjuskatt atvinnutekna nam samanlagður skattaafsláttur til þessara 330 einstaklinga, 0,1 prósent hinna tekjuhæstu, 12,8 milljörðum króna þetta eina ár. Það er hluti af týndu blaðsíðunni í ríkisreikningi; listanum yfir styrki til hinna ríku og tekjuháu í formi skattalækkana nýfrjálshyggjuáranna. Þau sem fengu mesta afsláttinn voru Sigurður Þ K Þorsteinsson með 776 m.kr. styrk úr ríkissjóði í formi skattaafsláttar á fjármagnstekjur, María Bjarnadóttir með 770 m.kr. og Gísli J Friðjónsson með 692 m.kr. Þessi þrjú fengu skattaafslátt upp á 2.238 m.kr. vegna tekna ársins 2016. Meðalafsláttur á þau sem tilheyra 0,1 prósenti hinna tekjuhæstu var 38,7 m.kr.

Samanburður við öryrkja

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta ár borgaði Tryggingastofnun út 34,4 milljarða út í örorkulífeyri. Þá er talið saman örorkulífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging örorkulífeyrisþega, örorkustyrkur og vasapeningar örorkulífeyrisþega. Alls fengu um 17.500 öryrkjar greitt frá stofnuninni, að meðaltali rétt tæplega 2 m.kr.

0,1 prósentið, 330 manns, fékk samkvæmt þessu ríflega 1/3 af öllum örorkulífeyri og -bótum frá Tryggingastofnun; álíka mikla aðstoð úr ríkissjóði og rétt tæplega 6.500 öryrkjar fengu að meðaltali.

Þetta er algjört ógeð

Þetta er náttúrlega alveg galið. Þetta er ein af afleiðingum þeirra stefnu sem ríkt hefur hér í stjórnmálum, nýfrjálshyggjunni. Hún gengur út á að færa stuðning samfélagsins frá hinum fátæku og veiku til hinna ríku og valdamiklu, andstyggileg andmannúðarstefna. Blessunarlega er fólk um allan heim að vakna upp af þessari martröð og ef við höldum vel á spöðunum ættum við að geta skúrað þessa stefnu út úr ríkisrekstrinum og stjórnmálunum á næstu misserum. Ekki veitir af, þetta er algjört ógeð.

Eru byrði á samborgurum

Af þessum 12,8 milljörðum króna sem ekki eru innheimtar hjá þessu fólki ættu 7,8 milljarðar að renna til sveitarfélaganna í formi útsvars, en ekkert útsvar er lagt á fjármagnstekjur. Sem er galið. Margt af þessu fólki borgar það sem eitt sinn var kalla vinnukonuútsvar og 24 af þessum 330 borga ekki krónu til sveitarfélagsins sem þau búa í, eru byrði á samborgurum sínum; ölmusufólk þótt það vaði í peningum.

Tekjuháir svíkja undan skatti

Norsk rannsókn benti til að hin allra auðugustu og tekjuhæstu sviku um 35% af tekjum sínum undan skatti. Við getum því áætlað að þessir 330 einstaklingar hafi haft um 32,8 milljarða í tekjur til viðbótar við þá 60,8 milljarða sem fólkið gaf upp. Ef við miðum við að þær tekjur sem skotið var undan skatti ættu að bera hæsta skattþrep tekjuskatts þetta tiltekna ár, þá getum við gert ráð fyrir að ríki og sveitarfélög hafi orðið af um 15,2 milljörðum í skatttekjur vegna skattsvika þessa hóps. Ofan á 12,8 milljarða skattaafsláttinn. Kálfurinn launar sjaldnast ofeldið. Það leiddu Panamaskjölin meðal annars í ljós. Jafnvel þótt búið væri að lækka alla skatta á hinum ríku þá héldu þau áfram að skjóta undan.

Hinn raunverulegi bótahópur

Og svo er búið að fella niður eignaskatta á Íslandi. Ef við reiknum með 7,5% ársávöxtun þá má reikna með að á bak við þessar fjármagnstekju liggi eignir sem eru um 700 milljarðar. Fram til 2005 hefði verið innheimtur rúmlega 10 milljarða króna eignaskattar henni og eru þá ekki taldar með fasteignir og aðrar eignir sem ekki skiluðu arði eða söluhagnaði. Sá skattaafsláttur sem lesa má úr lista Stundarinnar eru því um 22,8 milljarðar króna, afsláttur til aðeins 330 manna hóps 0,1 prósent þeirra tekjuhæstu árið 2016. Það eru 69 milljónir á mann, 1,3 m.kr. á viku í skattaafslátt. Fyrir utan skattaundanskotin og skattsvikin. Þessi hópur er hinn raunverulegi bótahópur á Íslandi undir lok nýfrjálshyggjutímans.

Er það sanngjarnt gagnvart Ársæli?

Fyrir þau ykkar sem hafið ekki samkennd með öryrkjum og láglaunafólki; þá má stilla dæminu upp svona: Ársæll Hafsteinsson var 39. tekjuhæsti einstaklingurinn 2016. Hann var með 23,1 m.kr. á mánuði í laun eða 278 m.kr. yfir árið og borgaði af því um 121,7 m.kr. í tekjuskatt eða 43,9%. Guðrún Birna Leifsdóttir var 10. tekjuhæsti einstaklingurinn, var annars vegar með 154 kr. í laun á mánuði og hins vegar 696 m.kr. í fjármagnstekjur; samtals 698 m.kr. í árstekjur. Af þessum tekjum borgaði Guðrún 139,3 m.kr. í skatt eða 20%. Guðrún var sem sagt með 420 m.kr. meira í tekjur en Ársæll en borgaði bara 16,6 m.kr. meira í skatt. Er það sanngjarnt gagnvart Ársæli?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: