- Advertisement -

Arion! Úlfur í sauðargæru

En nú hefur bangsi breyst í rándýr, stórt vont rándýr.

Sigurlaug Gísladóttir skrifar:

Þau tíðindi urðu í fjölskyldunni eftir ævilanga samleið fyrst með Búnaðarbanka, síðan Kaupþingi og nú Arion að við sögðum hingað og ekki lengra og yfirgáfum þetta bákn.

Því fylgir sannarlega tregi að þurfa að grípa til svo róttækra aðgerða en öðru varð einfaldlega ekki við komið. Þetta bákn eins og ég vil kalla það, er komið langt frá uppruna sínum.
Hér áður fyrr mátti líkja því við stóran ljúfan bangsa sem manni var í raun „gefinn“ í vöggugjöf með innistæðu í Búnaðarbanka. Þetta var  traustur bangsi sem maður gat alltaf leitað til þegar á bjátaði. Ef eitthvað óvænt kom upp, ef mann langaði að framkvæma, skapa sér atvinnu eða bara hvað sem var, þá fór maður í útibúið sitt og spjallaði við stjórann þar og fundinn var flötur á að hlutirnir gengju upp, og svo framarlega sem maður stóð við sitt var hægt að treysta á bangsa gamla.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Enn ef taka skal „áhættu“  með venjulegan launamann  eru klærnar beittar og miskunnarlausar.

En nú hefur bangsi breyst í rándýr, stórt vont rándýr, sem hefur það eitt á stefnuskránni að hámarka arðgreiðslur sínar sama hvað það kostar og helst skal það vera hin venjulega íslenska fjölskylda sem hefur allt sitt á þurru, stendur við sitt og má aldrei vamm sitt vita hvað varðar fjármálin.

Þeir sem bankanum stjórna víla ekki fyrir sér að lána og afskrifa ef undir eru milljarðar og það jafnvel til þekktra aðila með slóðina á eftir sér í kennitölum eða vanskilum. Enn ef taka skal „áhættu“  með venjulegan launamann  eru klærnar beittar og miskunnarlausar.
Fólkið sem er andlit bankans gagnvart almennum viðskiptamönnum,  getur  í raun ekki unnið þá vinnu sem einu sinni var þeirra, allar ákvarðanir eru teknar í fílabeinsturni í Reykjavík, enginn þorir að gera neitt út fyrir hinn stranga kassa sem excelstjórarnir  eru búnir að hanna sem hina einu sönnu formúlu um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Þeir eru komnir svo langt frá öllum eðlilegum lífsmáta sem við flest búum við að þeir skilja ekki einu sinni einfalda kostnaðaráætlun þ.e. þegar hún passar ekki í þeirra útreikninga sem allir virðast vera byggðir á lífskjörum þeirra sjálfra.  

Að byggja hús sjálfur sem kostar næstum helmingi minna en ef aðrir byggja það fyrir þig, er bara ekki leyfilegt hjá þessu rándýri. Þú skalt sko ekki komast upp með að ávaxta þína vinnu svona vel, segir dýrið:

Að byggja hús úti á landi kostar ekki það sama og í borginni, því gerir excelskjalið ekki ráð fyrir.

Að þú standir ALLTAF í skilum passar heldur ekki í formið.

Að þú viljir ekki ljúga upp tölum til að sýna hærra verðmæti  passar heldur ALLS EKKI í formið.

Lífið er bara ekki svona og við erum misjöfn eins og við erum mörg.

Það að bankinn hafi alltaf getað treyst orðum þínum OG gjörðum skiptir þetta rándýr ekki einasta máli. Þeim hins vegar leyfist að setja á okkur endalaus gjöld og búa til  nýjar innheimtuleiðir með enn fleiri gjöldum og draga lappirnar í vaxtalækkunum.

Málið snerist um litlar 3.000.000 krónur sem vantaði í framkvæmdafé vegna nýbyggingar ungs manns, þetta snerist um traust upp á heilar ÞRJÁR MILLJÓNIR og á bak við það voru verðmæti upp á 10  milljónir króna sem búið var að framkvæma með eigin fé og vinnu , en af því að byggingarstigið  var ekki rétt mátti ekki meta það. Talandi um að vera ferkantaður og fastur í eigin excelskjali.

Lífið er bara ekki svona og við erum misjöfn eins og við erum mörg. Ég skil að menn verða að ávinna sér traust, við teljum okkur svo sannarlega hafa sýnt það um ævina að vera traustsins verð í þessum efnum. OG dýrið hefur heila stofnun til að tékka á okkur þessum sauðsvarta, þ.e. Credit Info, en við höfum ekkert,  eða neinn til að leita til að meta hvort bönkunum er treystandi. Ekki alveg jafnræði þar.

En traust verður að ganga í báðar áttir og Arionbanki er gjörsamlega rúinn trausti af okkar hálfu og þegar þessi staða kom upp fórum við í saumana á öllum fjármálum stórfjölskyldunnar og þá reið enn eitt áfallið yfir. Ekki bara þessi höfnun á fjármögnun heldur vegna yfirnáttúrulegs okurs þessa rándýrs sem er búið að kosta okkur stórar fjárhæðir með sofandahætti í okkur sjálfum,  við treystum þeim í alltof langan tíma og það er búið að kosta okkur  fúlgur sem við hefðum getað sparað okkur með endurfjármögnun fyrir löngu. Traust sýndum við þessu rándýri sem þeir hafa svo sannarlega ekki verðskuldað í langan tíma.

Við munum njóta þess að hitta ykkur á förnum vegi, en hér skilja leiðir í bankamálum.

Svo við fórum í annan banka, banka sem er jú með ferköntuð excelskjöl líka, en þar var þó sagt við okkur, „við finnum leið“ – við reddum þessu. Nýr banki er nú búin að endurfjármagna okkur og gott betur, þau fundu leið sem við vissum að var til,  enda höfðum við nákvæmlega ekkert unnið annað til en að það væri gert og við munum sýna þeim að við ERUM traustsins verð.

Kæru starfsmenn Arion banka á gólfinu, þið sem hafið þjónustað okkur mörg hver frá tímum Búnaðarbankans sáluga, þið eruð yndisleg og við þökkum ykkur innilega fyrir samskiptin í áranna rás. Við munum njóta þess að hitta ykkur á förnum vegi, en hér skilja leiðir í bankamálum.

Þið aftur á móti sem stjórnið rándýrinu ættuð að reyna að finna bangsann í ykkur hið fyrsta því ég hef enga trú á öðru en að annars fari illa fyrir ykkur. Það munu fleiri átta sig á úlfinum í sauðargærunni sem þið hafið hreiðrað um ykkur í.

Sigurlaug Gísladóttir, Blönduósi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: