- Advertisement -

Áttatíu milljarða hagnaður bankanna / eru þeir aflögufærir?

„Það fyrsta sem þeir horfðu á þá voru húsnæðiseigendur, að auka byrðar á þeim til að greiða fyrir framkvæmdina sem þarna var.“

Eyjólfur Ármannsson.

Alþingi „Ef við skoðum núverandi lög um bankaskatt, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, sem eru búin að vera í gildi frá 2010, í 13 ár, þá kemur í ljós að rökin fyrir bankaskattinum á þeim tíma var gríðarlegur kostnaður sem lagðist á íslenska ríkið í kjölfar hruns fjármálakerfisins sem má rekja að stórum hluta til óhóflegrar áhættusækni fjármálafyrirtækja,“ sagði Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksins, þegar hann talaði um mál flokksins um hækkun bankaskatts.

„Í því ljósi var talið réttmætt að þeir aðilar sem störfuðu á þessum markaði greiddu ríkissjóði tiltekið framlag sem myndi nýtast við endurreisn fjármálakerfisins á næstu árum. Það var gríðarlegur kostnaður sem lagðist á ríkið eftir hrunið. Í dag er kostnaður samfélagsins gríðarlegur af því að hafa 9,25% vexti og lifa á þeim verðbólgutímum sem við búum við. Bankarnir bera ekki verðbólguáhættu á stórum hluta útlána sinna, það gera íbúar þessa lands í formi verðtryggðra lána. Því er eðlilegt að bankaskattur verði hækkaður, vegna þess gríðarlega kostnaðar sem samfélagið þarf að bera af verðbólgunni, af vaxtastiginu í landinu og þeim gríðarlegu áföllum sem eru að verða í samfélaginu, þegar snjóhengja fellur á það og afborganir af lánum eru sums staðar komnar í vel yfir hálfa milljón á einstakling. Einstaklingar eru þegar farnir að þurfa að selja ofan af sér íbúðir sínar og húsnæði vegna hinnar gríðarlegu vaxtabyrði,“ sagði Eyjólfur.

„En hvernig er staða bankanna? Jú, staða bankanna er eins og ég sagði áðan, fyrstu níu mánuði ársins var 60 milljarða hagnaður og það stefnir í 80 milljarða hagnað. Á verðbólgutímum þegar samfélagið ber gríðarlegan kostnað er hagnaður bankanna það mikill að það er einsdæmi orðið í sögu þeirra. Þeir eru að græða á því vaxtastigi sem er í landinu og á þeim verðbólgutímum sem við lifum núna.“

Það eru þessi heimili sem bera byrðarnar af verðbólgunni og enginn annar.

„Ég tel að þetta sé mikilvægt mál til að auka tekjur ríkissjóðs og ekki síst væri hægt að nota hluta af peningunum til að koma til móts við það fólk sem er að missa húsnæði sitt vegna þessara gríðarlega háu vaxta. Það eru þessi heimili sem bera byrðarnar af verðbólgunni og enginn annar. Vegna þess sem hefur komið fram í umræðunni í samfélaginu, að það sé verið að hækka skatta á fyrirtæki, að það sé lausn stjórnmálamanna við ýmsum vandamálum, þá skal ég segja ykkur frá einu vandamáli sem við áttum við í síðustu viku og það var varðandi byggingu innviða á Reykjanesi, að verja innviði á Reykjanesi. Hvað gerði ríkisstjórnin? Jú, þeir hækkuðu skatta á almenning, hækkuðu skatta á húsnæðiseigendur, lögðu auknar byrðar á húsnæðiseigendur. Við hérna á Alþingi Íslendinga þurftum að afgreiða þá löggjöf á einum degi sem var sjálfsagt að gera vegna innviðanna en að fara að gera það einnig varðandi aukna skattheimtu, sem á að taka gildi 1. janúar, var algjört hneyksli að mínu mati. Að sjálfsögðu átti að nota hinn almenna varasjóð í það þar sem þetta voru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg útgjöld. Það var nægur peningur í þeim varasjóði. En varðandi það að halda því fram að við séum að fara að ráðast á fyrirtæki hérna en ekki einstaklinga þá ætti ríkissjóður og stjórnarmeirihlutann að horfa í eigin barm og til þess sem þeir horfðu á við vernd innviða á Reykjanesi. Það fyrsta sem þeir horfðu á þá voru húsnæðiseigendur, að auka byrðar á þeim til að greiða fyrir framkvæmdina sem þarna var,“ sagði Eyjólfur Ármannsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: