- Advertisement -

Bankarnir borgi sjálfir skaðann sem þeir hafa valdið heimilunum í landinu

„Það er þyngra en tárum taki að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skuli ekki sýna meiri skilning á stöðunni sem blasir við.“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir

Alþingi „Nú er það svo að ég vildi óska að ekki væri þörf á vaxtabótum. Ég tel að áherslan ætti að felast í því að koma í veg fyrir að bankarnir fái að blóðmjólka heimilin og græða stórkostlega á því, en ekki að ríkið komi með plástur í formi vaxtabóta og leggi út í kostnað til að bæta heimilunum skaðann sem bankarnir hafa valdið. Það er eitthvað verulega öfugsnúið við það. Bankarnir eiga sjálfir að greiða fyrir skaðann sem þeir hafa valdið, ekki skattgreiðendur. Að því sögðu eru vaxtabætur nauðsynlegar til að bregðast við því ástandi sem nú ríkir,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, á Alþingi, í umræðum bandorminn sem fylgir fjárlögum næsta árs.

„Áðurnefnt svar fjármálaráðherra byggir á vandræðalega röngum forsendum og vanþekkingu á nokkrum augljósum staðreyndum málsins eins og t.d. þeim að hækkun fasteignaverðs eykur ekki ráðstöfunarfé heimilanna, hækkun fasteignaverðs leiðir yfirleitt til aukinna útgjalda vegna hækkandi fasteignagjalda, þau heimili sem hafa tekið verðtryggð lán sjá höfuðstól lána sinna hækka alveg jafn hratt, ef ekki hraðar en fasteignaverðið, hækkun fasteignaverðs hefur engin áhrif á heimilisbókhaldið fyrr en fasteign er seld, en þá þarf líka í flestum tilfellum að kaupa aðra fasteign dýrara verði en annars, þannig að þegar upp er staðið er hagnaðurinn í raun takmarkaður,“ sagði hún.

Næst talaði hún um ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um að fækka um fimm þúsund fjölskydur sem fá vaxtabætur:

„…og vegna athafnaleysis ríkisstjórnarinnar.“

„Það er þyngra en tárum taki að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skuli ekki sýna meiri skilning á stöðunni sem blasir við. 5.000 fjölskyldur sem hafa það lágar tekjur og skulda svo mikið að þær hefðu átt rétt á vaxtabótum áður en vextir fóru að hækka munu ekki fá þær þegar vextir hafa hækkað svo að skuldabyrði þeirra hefur aukist um tugi og yfirleitt hundruð þúsunda í hverjum mánuði, vegna þess að verðmat á íbúðum þeirra hefur hækkað á pappír þó að ráðstöfunartekjur þeirra séu þær sömu og áður. Að svipta þetta fólk vaxtabótum heitir einfaldlega að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Um það hljótum við öll að vera sammála, hvað svo sem okkur finnst um vaxtabætur að öðru leyti.  

Því legg ég til breytingu um að eignarskerðingamörk vaxtabóta hækki milli ára um 12%, en hvet ríkisstjórnina jafnframt til að gera raunverulegar breytingar þannig að ríkið þurfi ekki að beita björgunaraðgerðum sem þessum í efnahagsástandi sem hefur skapast vegna misráðinna aðgerða Seðlabankans í svokallaðri baráttu sinni við verðbólguna, þar sem hver mótsögnin rekur aðra, og vegna athafnaleysis ríkisstjórnarinnar,“ sagði Ásthildur Lóa Þórhallsdóttir á Alþingi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: