- Advertisement -

Bara nokkur orð því ég fæ ekki orða bundist

Allt sem við eigum höfum við eignast vegna baráttu, þar með talinn sjálfan verkfallsréttinn. Við eigum hann skuldlaust og hann getur enginn haft okkur. Hafi þeir skömm fyrir sem reyna.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Minnkar réttur fólks á því að fá mannsæmandi laun fyrir unna vinnu þegar kapítalistar skapa vandræði? Minnkar réttur hótelþernunnar á því að fá laun sem endurspegla alla þá miklu vinnu sem hún innir af hendi, þegar kapítalistar gera sitt „thing“ og blása upp bólur og fljúga hátt og brenna vængi og hrapa? Minnkar réttur bílstjórans til að geta látið dagvinnuna nægja til að sjá fyrir sér og sínum þegar forstjórinn sem lætur húbris stýra för í viðskiptaháttum endar með fyrirtækið sitt í þroti og „endaleikurinn“ og „dauðastríðið“ hefjast og kapítalisminn fer að færa fórnarkostnaðinn til; af sjálfum sér og yfir á alþýðuna? Minnkar réttur verka og láglaunafólks til að setja fram kröfur á ríkisvaldið, kröfur um að það hegði sér siðsamlega og sjái til þess að hagsmunir vinnuaflsins verði látnir ráða för (svona til tilbreytingar) í mótun ríkisfjármála ef að skeytingarleysi fyrirtækjaeigenda gagnvart hagkerfinu í trylltum ofmetnaði sínum leiðir til samdráttar?

Átökin á milli þeirra sem eiga og mega og þeirra sem ekki eiga og ekki mega eru raunveruleg og þau eru óumflýjanlegur af því að óréttlætið er viðvarandi svo lengi sem við erum neydd til að búa inní kerfinu. Það er hin einfalda staðreynd. Láglaunamanneskjan veit að hún getur ekki treyst þeim sem lifa langt fyrir ofan hana í öllum efnahagslegum og þjóðfélagslegum skilningi, þeim sem hafa ítrekað sýnt viljaleysi og skilningsleysi á aðstæðum hennar, til að deila gæðunum af neinu réttlæti. Hún veit að hún býr inn í kerfi sem nýtir hennar nauðsynlega vinnuafl en getur ekki, þrátt fyrir æðisgengna og endalausa og áráttukennda reiknifærni, reiknað dæmið svoleiðis að henni séu sannarlega tryggð mannsæmandi kjör. Þetta er engin smá vitneskja vegna þess á sama tíma veit hún að sama fólkið og getur ekki reiknað neitt af viti þegar kemur að henni getur alltaf reiknað inn á sína eigin reikninga endalausar milljónir. Þessi vitneskja leiðir láglaunmanneskjunni fyrir sjónir að vinnuaflið verður að berjast fyrir réttlæti; það er óumflýjanlegt.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Þeir sem koma í veg fyrir að við nýtum hann eru ekkert annað niðurrifsseggir sem stunda opinskátt samfélagslega skemmdarverkastarfsemi. Ég fordæmi slíka hegðun.

Forherðingin verður sífellt augljósari. Verkfallið síðasta föstudag sýndi okkur að margir atvinnurekendur bera enga virðingu fyrir verkfallsvopninu. Þrátt fyrir að rétturinn til að leggja niður störf sé auðvitað grundvallarréttur, mannréttindi. Við þetta verður ekki unað. Ef að kapítalistar halda að þeir geti ráðið bókstaflega öllu í íslensku samfélagi, ef að þeir halda að þeir geti haft af okkur það vald sem við þó höfum, þá þurfum við að sýna þeim svo ekki verður um villst að það er ekki raunin. Þeir eiga okkur ekki, við erum frjálsar manneskjur sem höfum lögbundinn rétt, rétt sem þau sem á undan okkur fóru færðu geigvænlegar fórnir til þess að tryggja okkur, verkfallsrétt. Þeir sem koma í veg fyrir að við nýtum hann eru ekkert annað niðurrifsseggir sem stunda opinskátt samfélagslega skemmdarverkastarfsemi. Ég fordæmi slíka hegðun.

Á meðan að atvinnurekendur og talsmenn þeirra láta eins og uppnámið sem einn úr þeirra röðum hefur skapað sé ástæða til þess að fresta verkföllum vinnuaflsins, sé ástæða til þess að vinnuaflið haldi áfram að lifa við skert kjör, haldi áfram að axla byrðar „stöðugleikans“ inní kerfi sem er í eðli sínu óstöðugt vitum við sem vinnum vinnuna að slíkt kemur ekki til greina. Krafan um að fólk fái tækifæri til að lifa góðu og mannsæmandi lífi er ófrávíkjanleg. Þau sem reyna að halda því fram að vinnuaflið sé svo ógeðslega undirsett auðvaldinu að vitfirringsháttur kapítalista leiði óumflýjanlega til frekari kúgunnar gera ekkert nema að opinbera andlýðræðislega afstöðu gagnvart samfélaginu; sum eiga alltaf að sætta sig við að fá aldrei nóg á meðan önnur komast upp með hvað sem er. Það er óásættanleg afstaða.

Staðreyndin er sú að atvinnurekendur halda að þeir hafi öll völd. En þeir hafa rangt fyrir sér.

Staðreyndin er sú að atvinnurekendur halda að þeir hafi öll völd. En þeir hafa rangt fyrir sér. Þeir hafa sannarlega mikil völd, allt of mikil völd, en þeir hafa ekki völd til að eyðileggja verkföllin okkar og þeir geta ekki skýlt sér á bak við óstöðugleika þess efnahagskerfis sem þeir græða yfirgengilega á til að komast hjá því að greiða eðlileg og sanngjörn laun. Það kemur einfaldlega ekki til mála.

Vegna þess að nei, réttur fólks til að fá mannsæmandi laun minnkar ekki þótt að kapítalistar skapi vandræði. Réttur fólks til að fá að lifa góðu lífi í vellauðugu og fámennu samfélagi er grundvallarréttur. Réttur vinnuaflsins sem með vinnu sinni skapar auðæfin, réttur vinnuaflsins sem leggur viðstöðulaust til samneyslunnar í gegnum skattkerfið er algjör og óumdeilanlegur. Vinnandi fólk hefur ávallt barist fyrir rétti sínum til að vera eitthvað annað og meira en „vara á markaði“ og fyrir því berjumst við einnig nú. Við berjumst við þá sem leyfa sér að halda því fram að það séu hamfarir, plága úr einhverri agalegri sögu um hinn grimma og mannfjandsamlega Brauðmola-guð, að vinnuaflið fái mannsæmandi laun á sama tíma og þeir draga „frelsi“ hins hugumstóra kapítalista til að valda uppnámi og óstöðugleika aldrei nokkurn tímann í efa.

Við berjumst vegna þess að ekkert yfirvald og engir atvinnurekendur hafa nokkru sinni sjálfviljug fært vinnandi fólki nokkurn skapaðan hlut. Allt sem við eigum höfum við eignast vegna baráttu, þar með talinn sjálfan verkfallsréttinn. Við eigum hann skuldlaust og hann getur enginn haft okkur. Hafi þeir skömm fyrir sem reyna.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: