- Advertisement -

Barnið var sumsé frelsari ljóss og lífs

Magnús R. Einarsson:

Það er allt með kyrrum kjörum við torg Heilags Kristófers. Nú er aðeins farið að kólna og fleira fólk á ferð en þegar hitinn var i þeim hæðum að aðeins blái homminn, tvífari fyrrum utanríkisráðherra Íslands og ég sátum hér utandyra. Sannir karlmenn í hádeginu og biðum þöglir eftir hafgolunni. Það er alveg óhætt því Heilagur Kristófer passar þetta torg og hefur gert hátt í þúsund ár. Þetta er eitt elsta torgið í Alicanteborg. Við erum heppnir torgbúarnir að hafa Heilagan Kristófer sem dýrling, því Krissi var enginn slöttólfur. Hann var sjö komma fimm fet á hæð, sem er jafngildi tvö hundruð og þrjátíu sentimetra. Væri hann á lífi í dag þá væri hann örugglega á góðum díl í NBA.

Hann þótti hallur undir hinn horn og halótta í ungdæminu. Þegar hann fattaði að myrkrahöfðinginn óttaðist aðeins ljósið í heimi hér þá ákvað Krissi að þjóna ljósinu frekar en rökkrinu. Til að þjóna ljósinu þá tók hann að ferja fólk á herðum sér yfir hættulegt fljót. Einn dag kom lítið barn og bað um ferð yfir fljótið. Krissi tók strákinn á herðar sér. Það hækkaði í fljótinu og drengurinn varð þyngri en tíföld þyngd í blýi svo ofurmennið Kristófer var við það að kikna. Enda sagði barnið þegar bakkanum var náð að Krissi hefði borið á herðum sér ekki aðeins allar syndir mannanna heldur líka þann sem veröldina skóp.  Barnið var sumsé frelsari ljóss og lífs. Heilagur Kristófer var seinna tekinn höndum af heiðnum höfðingja í Tyrklandi og afhausaður. Þrátt fyrir að hafa verið freistað með tveim yngismeyjum sér til huggunar ef hann aðeins hætti að trúa á ljósið. Með svona dýrling sér til verndar er óhætt að sitja út á torgi og njóta kvöldsvalans.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: