- Advertisement -

BB: „Einhvers staðar verðum við að fá tekjur“ – Arfur skerðir bætur til öryrkja

Makalaus umræða var á milli Guðmundar Inga Kristinssonar og Bjarna Benediktssonar á Alþingi í morgun. Bjarni segir: „Menn kalla það skerðingar þegar við látum það hafa áhrif að sumir hafa úr meiru að spila en aðrir.“

Guðmundur Ingi sagði: „Við erum að fjalla um framtíðaráætlun fjárlaga næstu fimm árin. Hæstvirtur fjármálaráðherra sagði áðan í ræðu sinni um dánarbú að fyrstu fimm milljónirnar yrðu skattlausar. En þær verða áfram skertar keðjuverkandi hjá Tryggingastofnun ríkisins. Og ég spyr: Finnst hæstvirtum ráðherra eðlilegt að ef þeir sem minnst hafa standa í þeim sporum að fá einhverjar örfáar krónur, þó ekki væri nema í arf, þá kosti það það að þeir þurfi að halda sér uppi það sem eftir er af árinu? Þeir eiga að borga meðan aðrir sem hafa það mun betra þurfa þess ekki. Finnst honum kerfið sem hefur verið búið til eðlilegt og er hann með einhver áform um að breyta því?“

Bjarni Benediktsson hefur aðra sýn á þetta mál: „Menn kalla það skerðingar þegar við látum það hafa áhrif að sumir hafa úr meiru að spila en aðrir. En það eru til fleiri hugtök yfir þá viðleitni og það er einfaldlega að stýra peningunum til þeirra sem minnst hafa. Svo getur fólk upplifað þetta allt saman sem mjög ósanngjarnt og vill fá meira út úr bótakerfunum. En einhver verður að standa undir þessu. Einhvers staðar verðum við að fá tekjur. Og í augnablikinu erum við að láta þessi kerfi virka af fullum þunga þrátt fyrir að ríkissjóður sé rekinn með 260 milljarða halla, tæplega 300 milljarða halla á yfirstandandi ári. Það stefnir í næstum 600 milljarða halla á næstu tveimur árum. Og menn segja að kerfin séu ósanngjörn. Ég segi: Við erum að leggja gríðarlega mikið á okkur til að verja þessi kerfi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: