- Advertisement -

BB: „Launin hafa einfaldlega stórhækkað“

„Hér var í raun og veru bara löng buna og röð af rangfærslum. Byrjum á þessu með mönnunarvandann. Hann er ekki tilbúningur ríkisstjórnarinnar og hann er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Mönnunarvandi á Norðurlöndunum er gríðarlegur. Það vantar tugi þúsunda hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum, tugi þúsunda. Og Ísland sker sig ekki úr í hópi Norðurlandaríkja í því að vera að eldast. Umönnunarþörfin er að vaxa og þar af leiðandi er stöðugt þörf fyrir fleiri hjúkrunarfræðinga,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í umræðu á Alþingi.

Helga Vala Helgadóttir hafði skömmu áður sagt: „Helsti vandi Landspítalans sem og annarra heilbrigðisstofnana á Íslandi er mönnunarvandi. Það vantar fyrst og fremst hjúkrunarfræðinga sem hafa menntað sig til starfa en kosið að fara annað vegna áralangrar kjarabaráttu sem stjórnvöld bera ábyrgð á. Það vantar fjármagn til að ráða til starfa fleira fólk og á því bera stjórnvöld líka ábyrgð. Heilbrigðiskerfið hefur á vakt Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn undanfarin sjö ár verið vanfjármagnað og er enn.“

Bjarni sagði einnig: „Ef við skoðum undanfarin fimm, sex, átta ár og veltum fyrir okkur launaþróun þeirra stétta sem háttvirtur þingmaður bendir sérstaklega á þá er hún afar jákvæð. Kaupmáttur launa hefur vaxið umfram það sem að meðaltali er að gerast í landinu. Launin hafa einfaldlega stórhækkað.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: