
Sólveig Anna Jónsdóttir:
Þetta voru erfiðir tímar og álagið mikið. En þetta voru líka frábærir tímar og magnaðir – við fundum samstöðuna og vilja félagsfólks til að þetta tækist – og það varð til þess að við bárum sigur úr býtum.
Í dag eru þrjú ár frá því að við á Baráttulistanum afhentum allar undirskriftirnar sem við og félagar okkar höfðum safnað, á skrifstofu Eflingar, til að geta boðið okkar (aftur) fram. Við fengum líkt og árið 2018 úthlutað listabókstafnum B – vorum nýji B-listinn, Baráttulistinn. Þann 15. febrúar unnum við svo kosningarnar um forystu Eflingar – þrátt fyrir stöðugar árásir og ósannindi. Árásir þeirra sem að gátu ekki hugsað sér að langstærsta félag verkafólks á landinu yrði undir stjórn fólks sem að tæki allar ákvarðanir með hagmuni vinnuaflsins í huga, en ekki þeirra sem hefðu engan skilning á raunverulegri og árángursmiðaðri verkalýðsbaráttu í samvinnu við meðlimi fagmenntastéttarinnar (PMC) sem vildu auðsveipa og auðstýranlega manneskju í formannsstólinn, manneskju sem skyldi að háskólafólkið á að ráða, verkafólkið að taka við skipunum og hafa sig hægt.
til að reyna að grafa upp skít um mig og Viðar Þorsteinsson, félaga minn.
Við tók ótrúleg atburðarás þar sem að þáverandi forseti ASí ásamt framkvæmdastjóra sínum, núverandi formanni VR og öðrum fylgihnöttum þeirra komu, í kjölfar þess að Baráttulistinn vann kosningarnar, í veg fyrir að niðurstaða trúnaðarráðs Eflingar, sem er æðsta vald félagsins, yrði virt og aðalfundi flýtt. Þetta var gert til að veita algjörlega umboðslausu fólki meiri tíma til að reyna að grafa upp skít um mig og Viðar Þorsteinsson, félaga minn og frumkvöðul í því að endurvekja róttæka stéttabaráttu á Íslandi. Þau létu sig engu varða lög Eflingar og ályktun trúnaðarráðs – álitu sig einfaldlega þeim æðri, eflaust vegna menntunnar og gáfnafars.
En þrátt fyrir þessa aðför að lýðræðislegum reglum og vilja félagsfólks fór auðvitað á endanum svo að ég og félagar mínir tókum við stjórn – og héldum ótrauð áfram við að breyta Eflingu í helstu og bestu baráttusamtök verka og láglaunafólks á landinu.
Það er ótrúlegt að þrjú ár séu liðin frá því að ég, Kolla og Sæþór hittumst fyrir utan Guðrúnartún eldsnemma morguns til að hefja aðra tilraun til að brjótast inn í skrifstofuvirkið. Ég man að við vorum mjög stressuð – en fyrst og fremst ótrúlega spennt og í miklu stuði. Kolla og Sæþór fóru inn með pappírana, ég beið fyrir utan, enda ekki velkomin í húsið, hvorki af þáverandi forystu ASí né starfsfólki skrifstofu Eflingar. Mér fannst ég bíða lengi í kuldanum, en eflaust voru það ekki meira en fimmtán mínútur þangað til að mínir kæru og góðu félagar komu út – og við föðmuðumst og gáfum hvort öðru high-five.
Þetta voru erfiðir tímar og álagið mikið. En þetta voru líka frábærir tímar og magnaðir – við fundum samstöðuna og vilja félagsfólks til að þetta tækist – og það varð til þess að við bárum sigur úr býtum, þvert á vilja þeirra sem að gerðu því sem næst hvað sem er til að stoppa okkur. Við trúðum á verkefnið – og við trúðum á okkur sjálf og samstöðuna hvert með öðru. Á endanum skilar það árangri – á endanum er það vörnin sem að enginn getur brotið niður.
