- Advertisement -

Besta tómatsúpa í heimi? Nei, varla, eða?

„Þetta er besta tómatsúpa sem ég hef smakkað,“ sagði Kristborg þar sem við sátum og borðuðum tómatsúpu á Friðheimum. Við erum sammála að ekki sé hægt að segja að súpan sé sú besta í heimi. En frábær er hún. Og þjónustan var látlaus og notaleg.

Friðheimar fá okkar bestu meðmæli.

Það er ekkert nýtt. Fyrir meira en áratug kom ég að Friðheimum til að taka viðtal við Knút Rafn Ármann, sem á Friðheima ásamt eiginkonu sinni, Helenu Hermundardóttur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Koman að Friðheimum er mér í fersku minni. Ég dáðist af öllu. Hreinleikanum, hugsun og hugmyndum þeirra hjóna. Sem og viðhorfum. Þá var ferðaþjónustan varla byrjuð þar.

Eðlilega er tómatsúpan í aðalhlutverki í tómatabúinu sjálfu. Ekki má gleyma brauðinu. Þetta var frábær máltíð.

Bændurnir að Friðheimum: Helena og Knútur Rafn.

Hér á eftir fer viðtalið sem ég tók við Knút Rafn árið 2008:

Knútur Ármann í Friðheimum:

Gráir eða grænir neytendur

Texti: Sigurjón M. Egilsson

Helena Hermundardóttir og Knútur Ármann kynntust í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hann hafði áhuga á hestum, hún á garðrækt. Hann fór í bændaskóla, hún í garðyrkjunám. Tuttugu og fimm ára gömul fluttu þau frá Reykjavík. Höfðu keypt Friðheima í Biskupstungum. Þar var engin aðstaða fyrir hross en sex hundruð fermetra gróðurhús. Þrettán árum síðar eru börnin þeirra orðin fimm, hrossin þrjátíu og fimm og gróðurhúsin nærri þrjú þúsund fermetrar. Þau rækta eingöngu tómata.

Tómatarækt er nokkuð flókin. Það helsta sem þarf er: gróðurhús, mikið af heitu vatni, gott kalt vatn og mikil rafmagnslýsing. Allt þetta er að finna á Friðheimum.

En það er altalað að bændur lifi ekki af eigin framleiðslu, heldur séu háðir styrkjum. Knútur segir að innan við fjórðungur teknanna komi úr beingreiðslum.

Meðal Íslendinga eru talsmenn þess að landbúnaður eigi ekki erindi hér. Hann sé okkur dýr og réttast sé að flytja sem mest inn, þá lækki verð og neytendur muni hagnast. Nú er árferðið hér með þeim hætti að öll innlend matvælaframleiðsla er mikils virði. Ætli bændur finni fyrir breyttum hug til stéttarinnar.

„Ég finn aðra umræðu í þjóðfélaginu. Þegar gjaldeyrisþurrð er þá sést svart á hvítu hversu mikils virði er að hafa matvælaframleiðslu í landinu. Þetta breytir umræðunni. Umræðan var á hinn veginn þegar evran var í sjötíu krónum og verið var að gera verðsamanburð hér og til að mynda í nágrannalöndunum. Þá var gengið skakkt og samanburðurinn ekki sanngjarn. Þetta er allt annað umhverfi í dag. Ég vil samt segja að við viljum samkeppni, en hún verður að vera sanngjörn og eins allur samanburður. Þegar verið var að bera saman verð hér og í öðrum löndum hefði verið sanngjarnt að bera saman matarverð í hlutfalli launa. Víða er allt annar launakostnaður en hér. Því er hægt að framleiða vörur á allt öðru verði en hér hjá okkur. Víða þarf fólk að eyða hærri hluta launa sinna til matarinnkaupa en hér.“

En hvað þarf að kaupa mikið frá öðrum löndum til að rækta tómata á Íslandi? Bítur kreppan í íslenska ylræktendur?

„Hún gerir það. Stærstur hluti okkar aðfanga er innfluttur. Við kaupum áburð, fræ, pakkningar og fleira frá útlöndum. Gengi krónunnar hefur skekkt allan okkar rekstur. Við vonum, eins og aðrir, að þetta lagist og það sem fyrst. Við höfum reynt að taka þessar breytingar á okkur. Ég gæti trúað að ef gerður væri verðsamanburður núna værum við með ódýrustu tómatana, jafnvel í allri Evrópu,“ segir Knútur.

Nálægð /

Við Íslendingar erum uppteknir af því að við gerum flest betur en aðrir. Segjumst eiga besta vatnið, besta lambakjötið. En hvað með grænmetið?

„Ég tel að við stöndum okkur vel hvað gæðin varðar. Það er metnaður meðal okkar ræktenda að standa okkur vel. Við búum við aðrar aðstæður en svo margir aðrir. Við erum á norðlægum slóðum, og því vaxa plönturnar hægar og með því fæst annað og betra bragð. Hér er tært loft, við vökvum plönturnar með einstaklega tæru og góðu drykkjarvatni. Það skilar sér í ferskleika. Við ræktendur erum mjög nærri markaðnum og afurðirnar geta verið komnar í hillur verslana sama dag og við tínum þær. Sama geta evrópskir bændur gert við sinn nánasta markað, en alls ekki þegar vörur eru fluttar milli landa.“

Hvað er tómatur ferskur lengi?

„Hann getur verið ágætlega ferskur í átján til tuttugu daga. Eftir því sem við leyfum tómatinum að roðna lengur á plöntunni verður hann bragðmeiri og að sama skapi ef á að geyma hann lengi verður að tína hann meðan hann er grænni. Vegna nálægðarinnar við markaðinn getum við tínt þegar þeir eru orðnir vel rauðir, vitandi að þeir komast í búðir mjög fljótt. Með þessu skilum við af okkur bragðmeiri tómötum. Það eru nokkrir þættir sem spila með okkur og gera það að verkum að okkar framleiðsla stenst samkeppni í gæðum. Eins verð ég að nefna að við notum einungis lífrænar varnir, engin eiturefni. Hollara getur það ekki verið.“

Hunangsflugur /

Þegar gengið er um gróðurhúsin á Friðheimum fer ekki á milli mála að býflugur gegna ákveðnu hlutverki við tómataræktina.

„Þær frjóvga blómin, sem er nauðsynlegt til að tómatar myndist.  Þær fljúga milli blómanna og frjóvga. Við kaupum þær frá viðurkenndum fyrirtækjum. Í hverju búi eru sextíu vinnuflugur sem fljúga um og frjóvga. Þær lifa í um sex vikur og þegar þeirra hlutverki er lokið skiptum við búinu út.“

Tómataplöntur hafa væntanlega líka takmarkaðan líftíma?

„Við skiptum þeim út tvisvar á ári. Verði þær of gamlar hægist á þeim og gæði minnka og framleiðni verður minni.“

Nú er talað meira en nokkru sinni fyrr um það hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Verði það gert óttast margir um hag bænda. Gerir þú það?

„Ég hef ekki nægar forsendur til að svara því. Ég hins vegar kalla eftir hlutlausri umræðu. Mér finnst sú umræða sem verið hefur einkennast af þeim sem vilja ganga í sambandið og af þeim sem ekki vilja það. Það vantar hlutlausa umræðu. Ég sé ekki að við þurfum að kvíða neinu en ég sé heldur ekki að það yrði algott að ganga í Evrópusambandið. Svo á eftir að reyna á hvernig semst, hvernig aðild myndi snerta mína atvinnugrein. Ég veit að í Finnlandi eru bændur með framleiðslustyrki þótt þeir séu í Evrópusambandinu.“

Grænir eða gráir /

Í nútímanum finnst mörgum fleira koma til greina en verð eða gæði þess sem keypt er. Grænir eða gráir neytendur. Grænir neytendur eru þeir sem huga að því hvaðan varan kemur, hver ræktaði hana, hversu langt hún var flutt á markað, hvernig hún var ræktuð og annað eftir því. Gráir neytendur eru andhverfan á þessu.

„Þessi umræða á eftir að aukast og á eftir að verða hverri þjóð holl. Það skiptir miklu að vera grænn neytandi. Við innkaupin gefur fólk ákveðin skilaboð. Það er hægt að stjórna drjúgu við heimsmyndina. Með því að kaupa vöru sem hefur ekki verið flutt yfir hálfan hnöttinn er verið að stuðla að því að heimurinn verði heilnæmari og hollari. Eins þarf að hugsa um sitt þjóðfélag. Það þurfa allir vinnu og það eru verðmæti og eins er auður í því að vera þjóðfélagslega þenkjandi. Þeim þjóðum sem þannig hugsa hefur vegnað betur, ég tala nú ekki um þegar kreppir að.“

Finnst Íslendingum ekki almennt vænt um þessa starfsgrein?

„Ég held það. Við finnum mjög jákvætt andrúmsloft. Í tómataræktinni höfum við aukið framleiðsluna heilmikið. Við höfum líka fjölgað tegundum og ræktum núna auk þessa venjulega aðrar tegundir; konfekttómat, plómutómata, kirsuberjatómata og heilsutómata. Við höfum sem sagt aukið framboð og alltaf er okkur tekið mjög vel. Það er hvatning til okkar um að standa okkur vel og gera enn betur. Meðal bænda er metnaður að gera vel. Það er líka gaman að finna að svo er.“

Þið sem ræktið tómata, eruð þið harðir andstæðingar eða samherjar?

„Ég lít á okkur sem samherja. Suma þekki ég betur en aðra. Við reynum að læra hver af öðrum varðandi ræktunina. Við erum nokkrir sem höfum farið saman til útlanda til að kynna okkur það nýjasta.“

Höfum hugsjónir /

Knútur, seljið þið alla ykkar framleiðslu?

„Nánast. Það eru óveruleg afföll. Við erum svo lánsöm að um níutíu prósent grænmetisylræktarbænda eiga Sölufélag garðyrkjumanna, sem er okkar sölumiðstöð. Varan er sótt til okkar og dreift í búðir.“

Fáið þið allir sama verð?

„Já, það er ekki keppt um verð milli framleiðenda innan félagsins. Þetta er eitt félag sem selur á einu verði, enda í samkeppni við opinn innflutning allt árið. Það var farið í gegnum þetta á sínum tíma og við vinnum eftir settum reglum.“

Afkoman skiptir máli, er hún viðunandi?

„Já, hún hefur verið það. Það verður enginn ríkur af þessu, starfinu fylgir ákveðinn lífsstíll og í þessu starfi erum við að fást við það sem við höfum gaman af. En auðvitað verður hver og einn að sjá fram á sæmilega afkomu.“

Í huga flestra er starf bænda afar bindandi. Er svo með ylræktarbændur?

„Já, starfinu fylgir mikil yfirlega. Þegar allt virðist í ró, þá er eitthvað að. Tæknin hefur hjálpað okkur heil mikið. Öllu er tölvustýrt. Áburðargjöfin er tölvustýrð, við höfum veðurstöð sem gefur upplýsingar í móðurtölvuna og henni getum við tengst gegnum fartölu hvar sem er í heiminum. Þannig getum við breytt gildum og fylgst með. En allur búskapur er bindandi. Samt er þetta orðið þannig að fagmennska og sérfræðiþekking skiptir alltaf meira máli.“

En þið komið bæði úr Reykjavík, hvernig kunnið þið við ykkur í sveitinni?

„Mjög vel. Okkur finnst þetta mjög fínt. Við vorum tuttugu og fimm ára, nýkomin úr skóla, þegar við fluttum hingað og við höfðum hugsjónir sem margar voru ekki raunhæfar. En allt hefur þetta gengið upp. Við höfum byggt upp hér og annað sem við hugsuðum ekki um, en það varðar börnin. Hér er skóli í göngufæri, en við áttum okkar fyrsta barn tveimur árum eftir að við komum hingað. Þau eru orðin fimm og við sjáum hversu mikill kostur það er að búa eins og við gerum. Skólinn, leikskóli og íþróttir í næsta nágrenni, við alltaf heima og til staðar fyrir börnin. Vinnustaðurinn er við heimilið. Þetta eru forréttindi. Við þurfum ekki að verja löngum tíma í að keyra börnin til og frá.“

Auk tómataræktunarinnar eru Knútur og Helena með 35 hross. Í sumar sem leið hófu þau að bjóða ferðafólki upp á hestasýningar, þar sem saga íslenska hestsins er rakin, gangtegundir sýndar og fólki er leyft að koma í hesthúsin og snerta hestana. Knútur segir þessar sýningar hafa farið ágætlega af stað, en um tvö þúsund gestir komu á sýningarnar. Aðstaða til sýninganna er með ágætum; skeiðvöllur og stúka fyrir áhorfendur, hljóðkerfi og annað sem þarf til að sýning nýtist sem best. Textinn er til á nokkrum tungumálum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: