- Advertisement -

Bjarkey lofar Bjarna

„Þessi umræða fjallar, eins og hér hefur verið rætt, um afleiðingar ákvarðana sem voru teknar fyrir hartnær 20 árum. Eins og við öll vitum er fjárhagsvandi ÍL-sjóðs arfleifð þeirra breytinga sem gerðar voru á húsbréfakerfi þáverandi Íbúðalánasjóðs árið 2004, saga sem við þekkjum flest og hefur verið rakin hér margoft í ræðustóli Alþingis. Það er fjöldi lagatæknilegra atriða sem má deila um, eins og oft er þegar ólíkir hagsmunir og ólík sjónarmið koma saman, en ég tel umfram annað að við verðum að ræða og nálgast þetta mál með hagsmuni almennings í huga. Ég tel áform hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra ábyrg og að þau sýni þá fyrirhyggju sem þarf til að koma í veg fyrir að vandinn vaxi enn frekar. Það væri óábyrgt ef ríkissjóður biði átekta eftir fyrirsjáanlegu þroti ÍL-sjóðs,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fulltrúi Vinstri grænna í  fjárlaganefnd Alþingis og lýsti yfir stuðningi við þá aðferð sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ætlar að fara.

„Það er alveg ljóst að það er ekki skynsamlegt að gera ekki neitt. Þau áform að leggja til slit og uppgjör ÍL-sjóðs draga úr óvissu gagnvart öllum þeim sem hlut eiga að máli, hvort sem það eru kröfuhafar, ríkissjóður eða almenningur í landinu. Það er ábyrgðarhluti stjórnvalda gagnvart skattgreiðendum, fólkinu í landinu, að uppgjör sjóðsins verði ekki meira íþyngjandi en tilefni er til af því að nóg er jú þegar um. Þess vegna er afskaplega mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan, að reynt verði til þrautar að ná samningum þannig að enginn beri skarðan hlut frá borði.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: