- Advertisement -

Bjarni Ben: Auðlindir í stjórnarskrá

Stjórnmál Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, skrifar grein um hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni. Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag. Bjarni skrifar meðal annars:

„Í mínum huga er löngu ágreiningslaust að í stjórnarskrá skuli setja ákvæði sem lýsi auðlindir í náttúru Íslands þjóðareign sem beri að nýta á sjálfbæran hátt landsmönnum öllum til hagsbóta. Í skýrslu stjórnarskrárnefndar er lögð áhersla á að í þjóðareignarhugtakinu felist sú meginhugsun að nýting náttúruauðlinda sé í þágu þjóðarinnar allrar. Það sé hins vegar óhjákvæmilega háð pólitískri stefnumörkun hvernig þessu markmiði er náð á hverjum tíma. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að stjórnarskrárnefnd telur brýnt að í stjórnarskrá sé kveðið á um að úthlutun heimilda til nýtingar auðlinda skapi ekki eignarrétt eða óafturkræf réttindi, svipað og gert er í núgildandi fiskveiðistjórnarlöggjöf.

Óraunhæft er, og raunar óæskilegt, að setja ýtarlegar reglur um nýtingu einstakra auðlinda í stjórnarskrá. Þar eiga frekar að koma fram meginmarkmið auðlindanýtingar, þ.e. sjálfbær nýting í þágu samfélagsins alls, og tryggingar fyrir því að lýðræðislega kjörin stjórnvöld á hverjum tíma geti unnið að þessum markmiðum.

Samhliða auðlindaákvæði þarf einnig að huga að setningu almenns ákvæðis um vernd umhverfisins. Stjórnarskrárákvæði um þessi tvö atriði, auðlindir og umhverfi, myndu að sjálfsögðu ekki tæma öll álitaefni á þessum vandmeðförnu sviðum eða fela í sér pólitíska töfralausn. Þau myndu hins vegar vísa veginn við nánari stefnumótun og vonandi fela í sér mikilvægt skref í átt til sáttar og stöðugleika um þá mikilvægu hagsmuni sem hér er um að tefla.“

Vill ákvæði um þjóðaratkvæði

Bjarni segist einnig vilja ákvæi um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá. Bjarni skrifar: „Eitt helsta álitaefnið hvað þetta varðar er hversu margar undirskriftir eigi að þurfa til. Ég tel að þjóðaratkvæðagreiðsla á grundvelli undirskrifta eigi fyrst og fremst að þjóna aðhaldshlutverki gagnvart Alþingi og jafnframt vera einskonar öryggisventill lýðræðisins. Hér þarf því að finna leið til að tryggja slíkan rétt þegar sterk og ótvíræð krafa rís um slíka atkvæðagreiðslu án þess að fulltrúalýðræðinu sé fórnað eða þinginu gert erfitt um vik að bregðast við aðkallandi málum.“

Forsendur til staðar

Bjarni endar greinina svona: „Í lok síðasta kjörtímabils var samþykkt stjórnlagabreyting sem gerir breytingar á stjórnarskránni á grundvelli þjóðaratkvæðagreiðslu mögulegar innan þessa kjörtímabils. Ég tel að nú séu fyrir hendi allar forsendur til þess að bæta við stjórnarskrá lýðveldisins ákvæðum sem taka á umhverfis- og auðlindamálum, þjóðaratkvæðagreiðslu og takmörkuðu framsali valdheimilda, sem bera mætti undir þjóðaratkvæði samhliða forsetakosningum á næsta ári.

Til að svo megi verða verður að halda vel á undirbúningi málsins og rekstri þess á Alþingi á komandi hausti. Jafnframt er ljóst að grundvöllur þessa er gott samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu, en á vettvangi stjórnarskrármála á slíkt samstarf sér mörg fordæmi. Gangi þetta eftir yrði um að ræða eina allra mestu breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins frá upphafi, breytingu sem ég tel að væri vel til þess fallin að varða veginn fyrir frekari endurskoðun.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: