- Advertisement -

Bjarni bombar fast á Samfylkinguna

„Þess vegna segi ég að þessar hugmyndir Samfylkingarinnar, sem voru kynntar hér í þinginu, voru einskis virði í tengslum við umræðuna um verðbólgu í ár.“

Bjarni Benediktsson.

„Mér finnst nú svolítið mikið í lagt að halda því fram að tillögur Samfylkingarinnar hafi skipt einhverju máli í tengslum við fjárlög ársins. Þegar lagðar eru saman tekju- og gjaldatillögur Samfylkingarinnar þá átti afkoman að batna um heila 4 milljarða. Nú vorum við að greina frá því í gær að afkoma ríkissjóðs er að batna um 70 milljarða af frumjöfnuði á þessu ári sem sýnir að þessi stóru kerfi okkar virka eins og til er ætlast. Þegar það er spenna í hagkerfinu taka tekjuskattskerfin meira til sín. Virðisaukaskattur vex, tekjuskattur einstaklinga hækkar, tekjuskattur fyrirtækja hækkar o.s.frv. Þess vegna segi ég að þessar hugmyndir Samfylkingarinnar, sem voru kynntar hér í þinginu, voru einskis virði í tengslum við umræðuna um verðbólgu í ár,“ sagði Bjarni Benediktsson á Alþingi, seint í síðustu viku.

„Ef við skoðum hins vegar af einhverri sanngirni það sem er að gerast í frumjöfnuði í ríkisfjármálunum þá er það í raun og veru með miklum ólíkindum að orðið hefur tæplega 200 milljarða bati á frumjöfnuði á tveimur árum. Og batinn heldur áfram. Við erum aftur komin í jákvæðan frumjöfnuð á þessu ári á undan áætlun. Ekki er hægt að halda öðru fram, vegna þess hvernig staðan er að þróast frá ári til árs, en að ríkið sé á þennan mælikvarða að reka aðhaldssamari stefnu en opinber umræða ber með sér.

Það kemur ekkert á óvart að Samfylkingin vilji tala fyrir skattahækkun. Það er almennt þannig með Samfylkinguna að hún talar fyrir sköttum til þess að eyða þeim samstundis. Það hefur ekkert staðið á mér þegar við hefur átt að beita sköttum. Ég held ég hafi sótt, í ríkisstjórn með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, mestu skatta í Íslandssögunni í einu frumvarpi sem endaði í um 400 milljarða tekjum fyrir ríkissjóð. En skattar sem eru eingöngu til þess ætlaðir að auka útgjaldastigi hjálpa ekki við þær aðstæður sem eru uppi núna.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: