- Advertisement -

Bjarni: „Ég meina það sem ég segi“

„Ég vona að þetta sé gert af einlægni en ekki bara út af innanbúðarerfiðleikum og innanflokkserjum innan Sjálfstæðisflokksins.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Alþingi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fór í andsvör við Bjarna Benediktsson vegna ræðu hans um bókun 35. Hún sagði meðal annars:

„Mig langar að spyrja hæstvirtan ráðherra, af því að þetta mál var lagt fram síðastliðið vor og það var einfaldlega þannig að það var ekki rætt, það var ekki sett á dagskrá af því að það var viðkvæmni þá innan stjórnarmeirihlutans: Er eitthvað núna sem er því til fyrirstöðu að við getum klárað þetta mál, burt séð frá því hvort við afgreiðum þessa skýrslu eða ekki? Má búast við því að ríkisstjórnin leggi fram málið aftur að breyttu og treysti sér til þess að verja EES-samninginn?“

Bjarni brást við:

„Ég var kannski of bjartsýnn.“

„Ég meina það sem ég segi hér að ég er með mál á þingmálaskránni og er tilbúinn að koma með það. Ég er að efna til breiðari umræðu heldur en áður var gert með því að koma með skýrsluna og óska eftir því að nefndin taki hana til skoðunar og umfjöllunar og ég kalla eftir því að fá álit frá utanríkismálanefnd á þessum álitamálum sem vissulega voru rædd nokkuð hér í fyrra en ég er sammála háttvirtum þingmanni að hefðu betur verið rædd til enda,“ sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.

Þorgerður Katrín mætti aftur og sagði:

„Ég vona að þetta sé gert af einlægni en ekki bara út af innanbúðarerfiðleikum og innanflokkserjum innan Sjálfstæðisflokksins. Það vekur vissulega miklar spurningar að ríkisstjórnin hafi ekki getað klárað þetta mál á síðasta vori og þess vegna spyr ég aftur: Sér ráðherra fram á að það sé þingmeirihluti fyrir þessu máli? Það mun ekki standa á Viðreisn hvað það varðar að greiða atkvæði með því en sér hann fram á að ríkisstjórnarflokkarnir allir geri það?“

Og Bjarni svaraði:

„Ég var kannski of bjartsýnn að halda að það væri hægt að koma til þingsins með skýrslu, án þess að fyrir þinginu lægi tillaga, til að taka dálítið breiða umræðu um ólík sjónarmið í þessu stóra máli sem ég tel að við ættum ekki að taka of léttvægt heldur sýna fulla athygli og taka afstöðu til mála. Það er það sem þingið verður að gera, það þarf að taka afstöðu til þeirra álitamála sem við stöndum frammi fyrir eftir athugasemdir ESA. En ég er strax farinn að festast í umræðu um að þetta sé bara allt saman gert til heimabrúks út af einhverjum innanhússmálum í Sjálfstæðisflokknum. Ég ætla ekki að svara því nema bara að segja að ég er að meina það sem ég segi hérna.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: