- Advertisement -

BJARNI ER REPÚBLIKANI

Hin ríku þurfa atkvæði til að geta haldið áfram gagnbyltingu sinni.

Gunnar Smári.

Gunnar Smári skrifar:

Í tilefni af andstöðu helmings þingflokks Sjálfstæðisflokksins gegn lögum um þungunarrof rifjaðist upp fyrir mér greining heilags Noam Chomsky á Repúblikanaflokknum á sjöunda áratugnum, þegar hægri menn í Bandaríkjunum voru að undirbúa gagnbyltingu hinna ríku gegn velferðar- og mannúðarsamfélagi eftirstríðsáranna. Ég tek fram að auðvitað voru eftirstríðsárasamfélögin ekki fullkomin velferðar- og mannúðarsamfélög, en það var á yfirborðinu samkomulag um það innan þeirra að markmið stjórnmálanna væri að auka velferð allra og styrkja mannúð, opna leið fyrir kúgaða hópa til þátttöku og tryggja öllum möguleika á góðu lífi. En hvað um það; gagnbylting hinna ríku, sem síðar fékk nafnið nýfrjálshyggja, snerist um að brjóta þetta samkomulag niður og fá kjósendur til að fallast á að samfélaginu yrði ekki stýrt út frá hagsmunum almennings heldur aðeins út frá hagsmunum hinna ríku. Sem voru aðeins 1% fjöldans, 10% ef tekin voru með þjónustustéttir sem högnuðust af auknum umsvifum hinna ríku (lögfræðingar, endurskoðendur, verðbréfamiðlarar, bankafólk o.s.frv.). Þetta var vandi hinna ríku í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum; hvernig fáum við fólk til að kjósa gegn hagsmunum sínum?

Þú gætir haft áhuga á þessum
Bjarni Benediktsson skilur vel þessa stöðu Repúblikana; hann er fyrst og síðast pólitískur armur hinna ríku, gagnbyltingarmaður sem vill frið til að skrúfa ofan af árangri almennasamtaka á síðustu öld. Ljósm.: xd.is

Richard Nixon hafði notað svokallaða Suðurríkjaaðferð í forsetakosningunum 1968 og 1972; höfðað til kynnþáttaandúðar hvítra íbúa og ótta þeirra gagnvart réttarbótum afríkanskra ameríkana á sjötta áratugnum. Eins og Donald Trump ól Nixon á ótta þessa fólks, talaði undir rós til rasistana á meðan Trump kann það ekki; lýsir hreint og klárt yfir stuðningi við Klu Klux Klan og aðra hvítra kynþáttahatara. En þrátt fyrir að Jimmy Carter væri veikur forseti mátu Repúblikanar það svo ekki að stuðningur kynþáttahatara í Suðrinu og andstaða við jafnaðaraðgerðir stjórnvalda á sjötta áratugnum dygðu ekki til. Þeir ákváðu því að taka upp andstöðu við fóstureyðingar í von um að sópa til sín atkvæðum kaþólikka í Norðurríkjunum og heittrúarkirkna mótmælenda í Suðurríkjunum. Fram að því hafði það verið klár afstaða hægrimanna innan Repúblikanaflokksins að fóstureyðingar væru ekki málefni ríkisvaldsins heldur persónulegt mál á ábyrgð einstaklingsins. Ronald Reagan viðhélt hundablístrum Nixon sem beint var að kynþáttahyggjufólki, en bætti við harðri afstöðu trúaðra gegn frelsi í einkamálum; gegn fóstureyðingum og réttindum samkynhneigðra en fylgjandi byssueign, bænalestri í skólum og annarri skoðanakúgun fjöldans gagnvart einstaklingnum. Ronald Reagan fór í kosningabaráttuna 1980 undir slagorðinu: Let’s make America great again. Það merkir að „við“ í merkingunni hvítir, karlar, kristnir, gagnkynhneigðir og ekki-fátækir ætlum að taka aftr völdin; þröngva öðrum hópum til að lifa í „okkar“ samfélagi.

Andstaða við fóstureyðingar tengjast á engan hátt inntaki gagnbyltingar hinna ríku. Hin ríku hafa alltaf nýtt sér fóstureyðingar, hafa aldrei þurft að spyrja neinn eða neita sér um það; hafa getað keypt sér fóstureyðingar á öllum tímum. Hin ríku hafa heldur engan hag af almennri byssueign eða banni við hjónaband samkynhneigða; svona siðferðisleg málefni tengjast á engan hátt gagnbyltingu þeirra sem snerist fyrst og fremst um að færa völd, fé og eignir frá almenningi til hinna ríku. En þar sem gagnbyltingin snerist um hagsmuni aðeins 1% kjósenda var nauðsynlegt að afla atkvæða út á eitthvað allt annað en stefnuna og ráðagerðir um gagnbyltinguna. Frá sjöunda áratugnum hafa Repúblikanar í Bandaríkjunum því reynt að sinna tveimur kjördæmum; í kosningum höfða þeir til íhaldssemi í einkamálum og láta eins og stjórnmálin snúist fyrst og síðast um þau mál. Milli kosninga snúa Repúblikanar sér að hinu raunverulega kjördæmi sínu, hinum ríku; og færa þeim skattalækkanir, veikari eftirlitsstofnanir, fleiri almannaeignir.

Bjarni Benediktsson skilur vel þessa stöðu Repúblikana; hann er fyrst og síðast pólitískur armur hinna ríku, gagnbyltingarmaður sem vill frið til að skrúfa ofan af árangri almennasamtaka á síðustu öld. Og þar sem hann er ríkur veit hann vel að hagsmunir hans fara aldrei saman við hagsmuni fjöldans. Hann veit að ráðagerðir hans og félaga hans og ættmenna eru óssamræmanlegar við vilja almennings. Bjarni veit því að hann verður að geta aflað atkvæða út á eitthvað annað en ráðagerðir hans; ef fólk sæi hvað hann ætlar sér myndi það hafna honum; hann fengi aldrei meira en 1% fylgi. Þess vegna þykist hann vera á móti lögum um þungunarrof, líklega er honum eins og forystu Repúblikana í Bandaríkjunum hjartanlega sama um svona lög. Þau ná ekki yfir hin ríku. Þau hafa alltaf getað keypt sér fóstureyðingar; hvar sem er, hvenær sem er.

Og Bjarna er sama þótt helmingur þingflokks Sjálfstæðisflokksins hafi greitt lögunum atkvæði. Hann veit að á Íslandi eru kaþólikkar á Norðurlandi ekki pólitískt afl þótt heittrúaðir mótmælendur á Suðurlandi séu það að vissu leyti, einkum Fíladelfíufólk í Vestmannaeyjum. Það hentar því hinum ríku vel að flokkur þeirra sé klofinn í málinu; ef þú ert á móti fóstureyðingum geturðu kosið xD, ef þú ert fylgjandi þungunarrofi geturðu kosið xD. xD hefur hins vegar enga skoðun á öðru en því að nauðsynlegt sé að halda áfram með gagnbyltingu hinna ríku; lækka skatta þeirra, draga úr skatteftirliti, halda áfram með einkavæðingu almannaeigna, færa hinum ríku auðlindir almennings o.s.frv.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: