- Advertisement -

Bjarni segir Harald hafa mátt skuldbinda ríkissjóð fyrir hundruð milljóna króna

Ólafur spurði og Bjarni svaraði fyrir ákvörðun ríkislögreglustjóra að stórhækka laun nokkurra lögreglumanna.

„Spurt er,“ svaraði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, þegar Ólafur Ísleifsson lagði fyrir hann spurningar um framgöngu Haraldar Johannesson, fyrrverandi ríkislögreglustjóra, þegar hann upp á sitt einsdæmi stórhækkaði laun nokkurra lögreglumanna, „að því hvort eðlilegt sé að menn hafi slíkar heimildir.“

Bjarni hélt áfram: „Við erum almennt að vinna með miðlæga kjarasamningagerð og eftirlátum stofnunum að útfæra það innan þess ramma sem samið hefur verið um hverju sinni. Hér hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að í þessu tiltekna embætti hafi menn haft heimildir til að ganga frá þessari útfærslu samninga. Það verður bara að meta hverju sinni,“ sagði Bjarni.

„Af svari ráðherrans má ráða að hann telji ríkislögreglustjóra hafa verið innan starfsheimilda sinna þegar hann hækkaði lífeyrisréttindi sjö undirmanna sinna um 48% að meðaltali og að sú aukning lífeyrisréttinda muni kosta skattgreiðendur 360 millj. kr. Virðist sem í svarinu sé gefið í skyn að þessi ákvörðun muni eða kunni að auka lífeyrisréttindi 59 lögreglumanna um 55% og kosta skattgreiðendur 1.910 milljónir, sem er tala sem er í svarinu,“ sagði Ólafur Ísleifsson.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Nei, ég get ekki tekið undir það að við séum hér með algerlega opinn krana.“

Ólafur var ekki hættur: „Ég leyfi mér að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann geti skýrt það nánar hvernig það megi vera að forstöðumenn ríkisstofnana geti haft heimildir til að breyta samsetningu launa starfsmanna sinna í þeim eina tilgangi að hækka eftirlaun þeirra.

Í annan stað: Hefur ráðuneytið látið kanna hversu margir af starfsmönnum ríkisins njóta fastrar yfirvinnu með svipuðum hætti og yfirlögregluþjónar hjá ríkislögreglustjóra gerðu og hver kostnaðaráhrif þess yrðu ef allar þær greiðslur yrðu færðar inn í föst laun?

Að lokum: Hefur ráðherra hugleitt hvort ástæða væri til að takmarka rétt forstöðumanna ríkisstofnana til að stofna til milljarða króna skuldbindinga fyrir ríkissjóð með þessum hætti?“

Bjarni svaraði: „Í þessu tilviki er það mat okkar í fjármálaráðuneytinu að menn hafi verið innan heimilda til að gera þær breytingar á starfskjörum sem um er fjallað í svarinu. Háttvirtur þingmaður fullyrðir að hér hafi það verið gert í þessum eina tilgangi. Ég ætla ekki að úttala mig neitt um það en það er alveg rétt að breytingar á kjörum geta haft mjög veruleg áhrif á lífeyrisskuldbindingar og almennt eru þær allt of aftarlega í allri umræðu hjá okkur. Við höfum gert átak í að gera upp eldri lífeyrisskuldbindingar en við eigum enn langt í land með að ljúka því uppgjöri.“

„Ég hlýt auðvitað að spyrja ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að leita frekari leiða en kemur fram í svari hans til þess að skrúfa fyrir þennan krana,“ spurði Ólafur.

Bjarni svaraði: „Nei, ég get ekki tekið undir það að við séum hér með algerlega opinn krana.“

Fram kom að fjármálaráðherra eða ráðuneyti hans hafa ekki“, „…látið framkvæma útreikninga af þeim toga sem spurt er um, þ.e. hvaða kostnaður myndi fylgja því ef þetta myndi ganga yfir alla aðra opinbera starfsmenn í sambærilegri stöðu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: