- Advertisement -

Bjarni þverskallast við að borga

Ásmundur Einar fer bónleið til búðar. Bjarni segir nei.

„Síðan er það spurningin af hverju endurgreiðslan hefur ekki farið fram nú þegar,“ sagði félagsmálaráðherrann, Ásmundur Einar Daðason, á Alþingi í gær.

Það var Guðmundur Ingi Kristinsson sem spurði Ásmund Einar um leiðréttu lífeyris vegna búsetuskerðingar. Íslenska ríkið kemst ekki undan greiðslunum. Félagsmálaráðherrann má sín lítils í málinu. Fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, situr á peningunum.

Í raun er Ásmundi Einar vorkunn af þeirri stöðu sem hann er í.

„Það hafa farið fram samtöl á milli félagsmálaráðuneytisins annars vegar og fjármálaráðuneytisins hins vegar og eins milli félagsmálaráðuneytis og fjárlaganefndar Alþingis. Félagsmálaráðuneytið hefur fengið erindi þess efnis, bæði frá fjárlaganefnd og fjármálaráðuneytinu, að mikilvægt sé, varðandi allar breytingar á framkvæmd fjárlaga sem valda útgjaldaaukningu, að fyrir liggi að það rúmist innan ramma ráðuneytisins eða ramma Tryggingastofnunar á yfirstandandi fjárlagaári,“ segir vængbrotinn ráðherra.

„Við þurfum síðan að afla okkur fjárheimilda fyrir þeim eða vera viss um að það rúmist innan þess fjárramma sem ráðuneytið hefur. Þetta er bara sá rammi sem við höfum búið okkur í kringum fjárveitingavald og framkvæmdarvald og hvernig það starfar. Það er enginn að segja að ekki verði farið í þessa vinnu heldur þurfum við að gera þetta með réttum hætti, bæði varðandi leiðréttinguna og eins það að afla okkur fjárheimilda til þess,“ segir hann.

Þetta getur ekki gengið upp. Íslenska ríkið hefur verið úrskurðað að hafa leikið fólk grátt og engar deilur eru um að því ber að borga það sem tók ólöglega. Og það ber að gera. Annað er fyrirsláttur sem á ekki við í þessu erfiða máli. Leiki minnsti vafi á í uppgjörum vegna þess verður fólkið að fá að njóta vafans.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: