- Advertisement -

Bjarni undirbýr nýja fjármálastefnu

Bjarni: „Ég er ekki alveg viss um að ég hafi skilið fyrirspurnina.“

„Ég held að langmikilvægasta spurningin við þær aðstæður sem uppi eru núna snúi ekki að 2019, heldur frekar að komandi árum. Það sem við erum að glíma við núna, eftir að ný hagspá var birt á föstudaginn, er mesta breyting í hagvexti sem við höfum séð í áratugi þegar hrunið er tekið til hliðar, þ.e. það er mesta breyting til hins verra á milli spágerða. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er sú hvort mér beri ekki hreinlega, og ég hallast að því, að koma með nýja fjármálastefnu sem markar þá sporin fyrir framtíðina,“ sagði Bjarni Benediktsson þegar hann svaraði fyrrverandi fjármálaráðherra, Oddnýju Harðardóttur, á Alþingi í dag.

Oddný spurði hvort Bjarni telji mögulegt að ganga á áætlaðan afgang af ríkissjóði og víkja frá fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var í fyrra við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu, án þess að breyta lögum um opinber fjármál?

Oddný: „Er það svo að hæstvirtur ráðherra líti á ástandið svipað og hér sé að koma efnahagsáfall eða annars konar þjóðarvá og forsendur séu til að breyta stefnunni þess vegna?“

Bjarni „Ég tel að það séu verulega breyttar forsendur. Já, ég tel það. Ég vék að því hér áðan að sú breyting sem hefur orðið á milli spágerðar er veruleg í öllu sögulegu samhengi.“

Skilja má á Bjarna að honum hafi ekki þótt mikið til spurninga Oddnýjar koma.

  • Dæmi 1: „Ég er ekki alveg viss um að ég hafi skilið fyrirspurnina.“
  • Dæmi 2: „Eða að menn séu raunsæismenn og spyrji alvöruspurninga á borð við þessa hér: Hvað er það í opinberum fjármálum sem kemur að bestu gagni fyrir hagkerfið og fólkið sem býr í þessu landi í dag? Það er auðvitað alvöruspurningin, nema ef menn ætli að vera formalistar.“

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: