- Advertisement -

Blekking nýfrjálshyggjunnar: FYRIRTÆKI ERU ÓLÝÐRÆÐISLEG KLÍKUVELDI SEM STUNDA ÁÆTLUNARBÚSKAP

Niðurstaðan er ofurskuldsettar íbúðir sem enginn vill og hagkerfi á brún enn nýrrar kreppu.

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Stundum má ætla af almennri umræðu að hinn svokallaði markaður skili réttri niðurstöðu þar sem innan hans skapist verðjafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Þá er gengið út frá markaði sem leikvelli fjölmarga jafningja sem hver um sig móti markaðinn með væntingum sínum og aðgerðum. Slíkur markaður er hins vegar ekki til og það sem í daglegu tali er kallaður markaður er aldrei lýðræðislegur vettvangur frjálsra einstaklinga heldur miðstýrt fyrirbrigði þar sem aðeins fáir taka ákvarðanir þótt fjöldinn þurfi að þola afleiðingarnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í dag eru það ekki nema örfá fyrirtæki sem byggja húsnæði í Reykjavík.

Tökum dæmi af ákvörðunum um hvað byggt er af húsnæði. Í dag eru það ekki nema örfá fyrirtæki sem byggja húsnæði í Reykjavík. Hverju fyrirtæki er stýrt af þröngum hópi eigenda og stjórnenda sem reyna að spá fyrir um eftirspurn og aðlaga framleiðslu sína að þeim spám með von um hámarkshagnað. Þessi áætlunarbúskapur fyrirtækjanna hefur ekkert að gera með frjálsan markað, niðurstaðan byggir ekki á sjálfvirkri svörun eftirspurnar fjöldans heldur aðeins spá örfárra um hvaða framleiðsla muni skila þeim mestum hagnaði.

Eins og Reykvíkingum er kunnugt hefur þessi áætlunarbúskapur fyrirtækjanna leitt af sér fáránlega offramleiðslu á dýrum blokkaríbúðum, sem engin sýnileg eftirspurn er eftir en hvert hinna fáu fyrirtækja taldi sig geta grætt mest á. Hvert um sig byggði á eigin spá sem lituð var af þrá eigendanna eftir hámarkshagnaði. Niðurstaðan er offramboð á íbúðum sem enginn vill en áframhaldandi skortur á íbúðum sem fólki sárvantar, ódýrum íbúðum sem venjulegt launafólk ræður við að kaupa eða leigja.

Á bak við áætlunarbúskap örfárra einstaklinga sem stýra ólýðræðislegum fyrirtækjum, sem ekkert mið taka af almannahag en miða aðeins á hámarkshagnað fyrir eigendur sína, eru bankar og lánastofnanir sem hafa aðlagað sig að þessum áætlunarbúskap fyrirtækjanna. Bankar lána út á viðskiptahugmyndir kommissara fyrirtækjanna og gangast inn á að þeir séu hæfari en aðrir til að meta þörf markaðarins, þótt öllum sé ljóst að þeir stjórnast aðeins af þrá eftir sem allra mestum hagnaði fyrir sjálfan sig.

Með nýfrjálshyggjunni var horfið frá þessu kerfi.

Innan hins fjármálavædda kapítalisma nýfrjálshyggjunnar eru lítil sem engin takmörk fyrir því hversu mikið bankar og lánastofnanir geta lánað einkafyrirtækjum út á áætlanabúskap þeirra. Innan nýfrjálshyggjunnar hafa verið settar þröngar skorður um hversu mikið hið opinbera má skulda, en engar reglur eru um hversu mikið skuldir einkafyrirtækja geta vaxið, þótt flestir viti að efnahagskreppa verði ávallt til af útlánaþenslu til einkageirans, sem skapar eignabólu og fjölgar óviturlegum lánveitingum sem síðan falla á lánveitandann og þaðan á almenning.

Á eftirstríðsárunum réðust flest ríki í okkar heimshluta í mikla innviðauppbyggingu; samgöngukerfi, skóla, sjúkrahús o.s.frv. Þetta var fjármagnað með sköttum á fyrirtækja- og fjármagnseigendur en þó fyrst og fremst með lántökum. Efnahagsstefnan gekk út á að byggja upp innviði sem myndu skila sér í öflugra hagkerfi sem skilaði tekjum til hins opinbera svo það gæti greitt niður lánin. Með nýfrjálshyggjunni var horfið frá þessu kerfi og þak sett á mögulega skuldsetningu hins opinbera á sama tíma og fjármálakerfin voru efld svo nánast engin takmörk voru fyrir hversu mikið þau gátu lánað einkafyrirtækjum.

Með þessu var seðlaprentunin í raun tekin af hinu opinbera og flutt til einkafyrirtækja. Viðskiptabankar gátu lánað einkafyrirtækjum ný lán langt umfram vöxt hagkerfisins á meðan opinberum aðilum var meinað að taka ný lán umfram vöxt hagkerfisins eða sífellt minni hlutar skatttekna hins opinbera af hagkerfinu.

Vald yfir í hvaða framkvæmdir var ráðist var flutt frá hinu opinbera.

Ríki og sveitarfélög, sem áður voru talin traustustu lántakendurnir (og sem þau eru enn, því þau geta ekki orðið gjaldþrota), var meinað að taka lán til framkvæmda á meðan einkafyrirtækjum var opnuð leið til takmarkalausrar lántöku. Þessum tilflutningi fylgdi gríðarlegur tilflutningur á valdi. Vald yfir í hvaða framkvæmdir var ráðist var flutt frá hinu opinbera, hinum lýðræðislega vettvangi þar sem hver maður hefur eitt atkvæði, yfir til fyrirtækja, þar sem ekkert lýðræði ríkir og flestar ákvarðanir eru teknar af einum manni eða ákaflega þröngum hópi manna; kommissara sem reka áætlunarbúskap um eigin hagnað.

Þótt þessi tilflutningur hafi verið réttlættur með því að fyrirtæki, sem leikendur á markaði, væru í reynd lýðræðislegri vettvangur en stofnanir hins opinbera, vita flestir að svo er alls ekki. Stjórnendur fyrirtækja vita líka að svo er ekki og þeir reyna að selja af sér ímynd hins menntaða einræðisherra sem getur tekið ákvarðanir fyrir fjöldann fremur en mynd af sér sem þjóni kviks markaðar. Eftir því sem meira vald hefur verið flutt frá hinu opinbera yfir til fyrirtækja hafa risið upp stjórnendur sem telja sig óskeikula, menn sem krefjast skilyrðislausrar hlýðni af starfsfólki og miklir kenningarbálkar um leiðtoga og leiðtogahæfni. Háskólar eru meira að segja farnir að kenna leiðtogafræði. Það er hlutverk þessara leiðtoga að taka ákvarðanir þar sem markaðurinn virkar ekki eða er óvirkur; að búa til áætlanir og sannfæra fólk um mikilvægi þeirra (ekki síst bankafólks sem lánar fé til að borga brúsann).

Samkvæmt þeirri hagfræði sem stuðst var við í okkar heimshluta á eftirstríðsárunum hefðu húsnæðiskreppu, líkri þeirri sem nú geisar í Reykjavík, verið mætt með opinberum framkvæmdum byggðum á mati á húsnæðisþörf almennings og kostuðum af nýjum lántökum ríkis og sveitarfélaga, sem greidd væru upp af auknum hag þjóðarbúsins af starfseminni og því að almenningur hefði aðgengi að ódýru og öruggu húsnæði. Samkvæmt nýfrjálshyggju ríkis og borgar í dag er þetta hins vegar vond stefna. Þess í stað er einkafyrirtækjum leyft að skuldsetja sig til að hefja framkvæmdir á þeim einingum sem eigendur þeirra telja sig geta grætt mest á. Niðurstaðan er ofurskuldsettar íbúðir sem enginn vill og hagkerfi á brún enn nýrrar kreppu.


Flest þessara fyrirtækja fóru á hvínandi hausinn í síðustu kreppu.

Í nýfrjálshyggjunni er því haldið fram að opinberir aðilar geti ekki tekið réttar ákvarðanir vegna þess að þeir séu ekki að hætta eigin fé. Ef það er reyndin þá á það ekki síður við um einkafyrirtækin, sem falið hefur verið að ákveða með hvaða hætti borgin byggist. Þau fyrirtæki sem eru umsvifamest núna og hafa safnað mestum skuldum til að byggja íbúðir sem enginn vill og enginn bað um, eru ekki drifin áfram af eigin fé. Flest þessara fyrirtækja fóru á hvínandi hausinn í síðustu kreppu, en voru ekki gerð upp heldur fengu að halda áfram starfsemi með stórfelldri niðurfellingu skulda. Eigið fé þeirra var nánast ekki neitt í upphafi yfirstandandi bólu og það eigið fé sem skráð er í bækur þeirra í dag er ekki fé sem eigendurnir lögðu til heldur ofmat á óseldum eignum, ímyndaður gróði af braski undanfarinna ára; bókfærð stærð sem á enga stoð í raunheimi.

Til að almenningur nái aftur stjórn á samfélaginu er nauðsynlegt að bakka út úr nýfrjálshyggjunni; afleggja íþyngjandi takmarkanir á skuldsetningu ríkis og borgar vegna innviðauppbyggingar og setja þess í stað takmarkanir á lánveitingar banka og lánastofnana til einkafyrirtækja, sem rekin eru í gróðaskyni. Það er forsenda þess að hægt sé að ná valdinu aftur úr höndum kommissara fyrirtækja í áætlanabúskap og flytja það aftur inn á hinn lýðræðislega vettvang, þar sem það á heima; þar sem félagslega rekin fyrirtæki og stofnanir sjá um framkvæmdir sem miða að því að hámarka almannahag.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: