- Advertisement -

Blótað og ragnað á sunnudagsmorgni

Sprengisandur Mikið er ég sammála Kára Stefánssyni þegar hann sagði á fundi hjá Pírötum, sem var haldinn vestur á Granda, að það skiptir engu fokking máli hvar andskotans spítalinn verði byggður, bara byggið hann. Og bætti við að bygging spítalans sé ekki spurning um skipalagsfræði, heldur hvernig við ætlum að hlúa að því fólki sem þarf á aðhllynningu að halda.

sme llMikið er ég ósammála Degi B. Eggertssyni þegar hann finnur að áhuga eða skoðunum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um fyrir hugaða uppbyggingu neðan Arnarhóls.

Notkun sjúkrarúma á Landspítalanum er nokkuð yfir eitt hundrað prósent, sem er ekki mögulegt, nema vegna þess að sjúklingar þurfa að liggja á göngum, í geymslum, á snyrtingum og þaðan af verri og óheppilegri stöðum. Því er fínt ef sem flest okkar taka undir með Kára og segjum einum rómi; það skiptir engu fokking máli hvar andskotans spítalinn verði byggður, bara byggið hann. Nauðsynin blasir við öllum.

Dagur B. Eggertsson hlýtur að sjá og heyra að fleiri en forsætisráðherrann eru undrandi á hvað á að byggja neðan Arnarhóls. Meðal þess fólks sem andmælir er Hrafn Gunnlaugsson. Maður sem hefur haft áhuga á byggingum og skipulagi í langan tíma. Hann skrifaði á Facebook í gær: „Skoðið þennan hrylling – þennan óskapnað, – viljum við búa í svona borg! ?Líflausari, geldari, útvatnaðri og plebbalegri lágkúru, lausa við allt sem heitir tilfinning fyrir umhverfi og sögu og samræmi, hef ég aldrei séð.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sat eitt sinn hér í hljóðstofunni með mér og við töluðum nýjan spítala. Hann sagði að sér þætti fráleitt að byggja spítala á umferðareyju við Hringbraut. Mun minni spámenn í flokki ráðherrans hafa tekið þetta upp eftir honum. Þegar allt leggst á eitt er mikil andstaða við uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Sem tefur öll áform og því sér ekki fyrir endann á yfir eitt hundrað prósent nýtingu sjúkrarúma á Landspítalanum. Er ekki best að rifja aftur upp orð Kára Stefánssonar frá því gær; það skiptir engu fokking máli hvar helvítis spítalinn verði byggður, bara byggið hann.

Ég fer ekki dult með að ég hrífst af málflutningi Kára Stefánssonar. Stundum þarf að tala tæpitungulaust. Það kann hann og það kann Hrafn Gunnlaugsson líka. Hrafn skrifaði einnig í gær eftirfarandi: „Svo hefur mér alltaf fundist Ráðhúsið eins og braggahverfi sem hafi flogið upp í loftið og brotlent á versta stað í borginni. Það eitt að mála húsið myndi kannski gera skrímslið minna augnmengandi, Eins er með hús Hæstaréttar sem var klastrað ofan í Þjóðleikhúsið í stað þess að byggja ofan á Arnarhvolshúsið, ef nauðsyn var.“

Dagur borgarstjóri verður að hlusta á aðra en sjálfan sig og aðra viðstadda í sölum ráðhússins. Allir Íslendingar mega og eiga að hafa skoðanir þegar jafn mikið er undir einsog boðaðar byggingar við rætur Arnarhóls eru. Líka forsætisráðherra. Hann má líka hafa skoðanir á hvar Landspítali framtíðarinnar verður byggður. Það er búið að slá nýjan tón í þá umræðu. „Það skiptir engu fokking máli hvar andskotans spítalinn verði byggður, bara byggið hann.“

Að lokum um þessi tvö mál. Það liggur lifandis ósköp á að hefja byggingu nýs Landspítala, nú liggja um eitt hundrað manns þar sem væru allra vegna betur komin á öðrum stöðum, á öðrum stofnunum, og hentugri en sjúkrahúsið er, en úrræðin eru ekki til. Það liggur á að byggja Landspítala og tími til að þrátta um hvar, er ekki til.

Byggingar við Arnarhólsrætur er allt annað mál. Í því máli er tími til að hlusta, tími til að gera það besta og réttasta.

Kjörorð þess sem ég hef sagt eru tvö; það skiptir engu fokking máli hvar andskotans spítalinn verði byggður, eftir Kára Stefánsson og viljum við búa í svona borg, eftir Hrafn Gunnlaugsson.

Hvorutveggja er nokkuð sem við verðum að taka afstöðu til, ekki síst stjórnendur ríkis og borgar.

Þetta er inngangsorð að Sprengisandi dagsins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: