- Advertisement -

Boða augljósar fátæktargildrur

Aðgerðirnar miðuðu að því að styrkja stöðu leigjenda og stöðu á leigumarkaði.

„Meginþunginn í þessum aðgerðum er á því hvernig hægt er að auðvelda enn fleirum að kaupa sér leið inn á húsnæðismarkaðinn. Það á sem sagt að troða öllum inn í sama módelið þar sem þeir eru neyddir til að skuldbinda fjárhag sinn í marga áratugi til þess eins að eignast öruggt þak yfir höfuðið,“ sagði Halldóra Mogensen Pírati um boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lausnar á hörmungunum á húsnæðismarkaði.

„Um framtak ríkisstjórnarinnar má ýmislegt segja. Í því er auðvitað sumt betra en annað. Það sem slær mig er að engar þær aðgerða sem eru fyrirhugaðar í húsnæðismálum eru raunverulega fallnar til þess að bæta stöðu leigjenda einmitt núna. Ekkert kemur til móts við það fólk sem mest þarf á hjálp að halda þegar kemur að húsnæðismálum, fólk með lágar tekjur sem greiðir háan hluta tekna sinna beint í húsaleigu. Það eru einhverjar úrbætur á réttarstöðu og einhverjar aðgerðir til lengri tíma en ekkert til að bregðast við þeim mikla vanda sem blasir við mörgum á leigumarkaðnum núna,“ sagði Halldóra.

Halldóra er fjarri sátt við það sem til stendur: „Allt tal um lán með há veðhlutföll og lágar afborganir fyrstu árin hljómar fyrir mér eins og augljósar fátæktargildrur. Hvað með það þegar fólk vill stækka við sig? Hvað ef það kemur verðbólguskot og afborganir hækka eða eiginfjárhlutfall minnkar? Gleymum ekki þeim þúsundum fjölskyldna sem misstu allt eigið fé í húsnæði sínu í verðbólguskotinu eftir hrun. Hvar verður þetta fólk statt í næstu efnahagskreppu?“

„Gleymum ekki þeim þúsundum fjölskyldna sem misstu allt eigið fé í húsnæði sínu í verðbólguskotinu eftir hrun. Hvar verður þetta fólk statt í næstu efnahagskreppu?“

Halldóra segist óttast að aðgerðirnar muni ekki losa fólk undan þeirri pressu og þeim áhyggjum sem fylgja veru á íslenskum húsnæðismarkaði; „…heldur bara að ýta enn frekar undir séreignarstefnu Sjálfstæðisflokksins þar sem leigjendur eru einhver aukastærð sem engu máli skiptir. Það hefur aldrei verið raunhæft að vera leigjandi á Íslandi til lengri tíma,“ sagði Halldóra og spurði félagsmálaráðherrann, Ásmund Einar Daðason, hvort hann muni beita sér: „…fyrir því að sú staðreynd breytist og að hér verði það raunverulegur kostur að vera á leigumarkaði?“

Að vonum metur Ásmundur Einar aðgerðirnar á allt annan hátt:

„Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðuðu að því að styrkja stöðu leigjenda og stöðu á leigumarkaði,“ sagði hann.

„Ég kannast því ekki við það sem háttvirtur þingmaður bendir á hér, að við séum að skila auðu gagnvart leigjendum. Við erum að veita báðum hópum val, þeim sem vilja vera á séreignarmarkaði og þeim sem vilja vera á leigumarkaði. Þetta er allt komið í góðan farveg og er í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins,“ sagði Ásmundur Einar.

Þrátt fyrir hversu ánægður ráðherrann er, sannfærði hann ekki Halldóru Mogensen.

„Ég hef áhyggjur af leigumarkaðinum. Við gætum gert svo miklu meira til að aðstoða þennan hóp. Gleymum ekki að helsta áhersluefni kjarasamninga var að bæta kjör þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Við gætum hækkað húsnæðisbætur og víkkað út hverjir eiga rétt á þeim. Við gætum hækkað barnabætur og hækkað skerðingarmörkin meira. Við getum raunverulega komið til móts við þann hóp sem þarf á aðstoð að halda, en það verður þá að vera sérstakt markmið með aðgerðunum, sem mér sýnist ekki vera, því miður.“


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: