- Advertisement -

Breski Íhaldsflokkurinn in memoriam: ÞAÐ SEM GENGUR YFIR BRESKA ÍHALDIÐ MUN HVOLFAST YFIR SJÁLFSTÆÐISFLOKKINN

Það er margt líkt með vanda Íhaldsins í Bretlandi og Íslandi í dag.

Gunnar Smári.

Gunnar Smári skrifar: Það er ekki annað hægt en að skemmta sér yfir óförum breska Íhaldsflokksins, flokks sem er nú án forystu og sem mælist með fylgi á við íslenska Sjálfstæðisflokkinn í skoðanakönnunum. Í nýjustu könnuninni mældist hann með 21% á meðan Verkamannaflokkurinn var með 31%, Brexit-flokkur Nigel Farage með 18% og Frjálslyndir demókratar með 13%. Báðir stóru flokkarnir hafa tapað fylgi en Verkamannaflokkurinn heldur mun betur í sitt fylgi en Íhaldið, 60% sem kusu Verkamannaflokkinn síðast ætla að kjósa flokkinn aftur en aðeins 44% þeirra sem kusu Íhaldið vilja gera það aftur. Brexitflokkur Farage tekur til sín 26% af kjósendum Íhaldsins 2017 en aðeins 7% af kjósendum Verkamannaflokksins. Klofningur Blairista út úr Verkamannaflokknum, Change UK, er ekki að ná neinu flugi; samkvæmt könnunum verður sá flokkur í basli með að ná manni inn á Evrópuþingið, sem þó ættu að vera óskalendur flokksins. Eins og staðan er í dag á Change UK enga möguleika á þingsæti í Westminister.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Verkamannaflokkur Corbyn er að standa af sér klofning í eigin röðum.

Íhaldið glímir við klofning, sem erfitt er að sjá hvernig verður undið ofan af, á meðan að Verkamannaflokkur Corbyn er að standa af sér klofning í eigin röðum. Klofningsfólk í Verkamannaflokknum, einkum gamlir Blairistar og þau sem komu sér vel fyrir í flokksapparatinu á tímum hinnar svokölluðu þriðju leiðar (hrá nýfrjálshyggjuleg efnahagsstefna, markaðs- og einkavæðing, skattalækkanir til hinna betur settu, útvistun og gjaldtaka fyrir opinbera þjónustu o.s.frv. undir blæju mannréttindabaráttu hópa sem náðu fótfestu meðal millistéttarinnar og eyrum valdastéttarinnar; það er ekki hinna fátæku, eigna- og valdalausu) hefur sýnt að arfleið Blair er ekki aðeins orðinn jaðarhópur innan Verkamannaflokksins heldur enn frekar meðal almennings.

Blairistar reyndu að sigla 3ju leiðinni á vaxandi ótta gagnvart hörðu Brexit en voru einfaldlega ekki trúverðugur kostur. Svokallað frjálslynt miðjufólk hafði þegar betri kost í Frjálslyndum demókrötum, þegar á reynir er lítill munur á Samfylkingu og Viðreisn, svo dæmi séu tekin af íslenskum evrópusinnuðum miðjufólki sem skilgreinir sig út frá frjálslyndi fremur en réttlæti og jöfnuði. Og kannanir sýna að meðal þeirra sem kusu gegn Brexit á sínum tíma nýtur Verkamannaflokkur Corbyn mest fylgis í dag (fær sama fylgi og Frjálslyndir demókratar og Íhaldið samanlagt samkvæmt könnunum um Evrópukosningarnar) og meira en helmings fylgis meðal þeirra sem ekki kusu um Brexit. Frá sjónarhóli Evrópumálsins virðst stefna Corbyn halda vatni, að reyna að skapa flokk utan um grundvallarátök samfélagsins en stökkva ekki á einhvern Brexit-vagninn; reyna að halda saman innan flokksins fólki með ólíka afstöðu til Evrópusambandsins en líka afstöðu til réttlætis, frelsis, jöfnuður og mannhelgi. Það hefur reynt á þessa stefnu Corbyn og vel má vera að hún springi í andlitið á honum, en hún virðist halda furðu vel í samanburði með sjálfsmorðsleiðangur Íhaldsmanna.

Íhaldsflokkurinn er sá flokkur á Bretlandseyjum sem síst virðist líklegur til að sækja fram. 

Klofningur út úr Íhaldsflokknum hefur öfugt við Verkamannaflokkinn sýnt að þótt klofningsfólkið sé fáliðað innan flokksins, og standi í raun utan hans, hefur það gríðarlegan hljómgrunn meðal almennings. Í afstöðunni til Evrópusambandsins kristallast vantrú almennings á nýfrjálshyggjuáranna þegar æ fleiri ákvarðanir hafa verið fluttar frá hinu pólitíska sviði yfir á markaðinn (þar sem auðvaldið ræður öllu) eða bundnar í alþjóðlegum skuldbindingum og samningum (sem vald-elítan ein virðist skilja og sjá markmiðin í). Brexit-flokkurinn girðir fyrir vaxtarmöguleika Íhaldsins hjá fólki sem er skeptískt gagnvart Evrópusambandinu, alþjóðavæðingu og elíustjórnmálum og hefur þegar tekið til sín 1/4 af stuðningsfólki flokksins. Og komið Íhaldinu niður á bæði hnén; flokkurinn hefur misst stöðu sína og virðingu, er alvarlega særður á vellinum og virðist aðeins bíða eftir náðarhögginu.

Íhaldsflokkurinn er sá flokkur á Bretlandseyjum sem síst virðist líklegur til að sækja fram. Brexit-flokkurinn hefur bara sóknarfæri; Frjálslyndir demókratar helling af slíku; tækifæri opnast fyrir Verkamannaflokk Corbyn sem stóri gamli flokkurinn, sá sem stendur af sér veðrin; Skoski þjóðarflokkurinn vex í óvissunni um framtíð Bretlands í Evrópu; Græningjar vaxa vegna stuðnings við ESB og vaxandi vitundar um umhverfismál … allir sjá tækifæri í stöðunni, nema Íhaldsflokkurinn. Áður en hann sér út úr vandanum og getur komið augu á tækifæri til endursköpunar; þarf hann að ná lendingu í Brexit-samningnum (sem er engin í boði) og ganga í gegnum leiðtogakjör (sem mun líklega aðeins ýta undir enn frekari klofning).

Það er kosið til Evrópuþingsins í gær, niðurstöður liggja fyrir á sunnudaginn. Kannanir benda til að Brexitflokkurinn fái flest þingsæti Breta, þá Verkamannaflokkurinn, svo Frjálslyndir demókratar og í sumum könnunum fá Græningjar fleiri þingsæti en Íhaldið. Gærdagurinn varð því enn einn niðurlægingardagurinn fyrir Íhaldsflokkinn, nokkuð sem flokkurinn þarf síst af öllu á að halda. Stjórnmálafólk og -flokkar vaxa á sigrum en grotna niður í ósigrum. Og hreyfingin skiptir máli; lítill flokkur sem vex getur stjórnað umræðunni á meðan stór flokkur sem hrapar í fylgi finnur engin eyru og er ómögulegt að ná tökum á umræðunni, setja mál á dagskrá eða fá fólk til að sjá hlutina frá sínu sjónarhorni.

Ástæðan fyrir að það má hafa gaman af óförum Íhaldsflokksins er náttúrlega fyrst og fremst sú að þessi flokkur á niðurlægingu sína skilið; þetta er andstyggilegur flokkur sem hefur verið í forystu nýfrjálshyggjunnar í okkar heimshluta og staðið fyrir niðurbroti velferðarkerfa og öryggisnetsins sem almenningur byggði upp af kröfu verkalýðshreyfingarinnar á eftirstríðsárunum. En það er líka gaman að fylgjast með þessu þar sem íslenski Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðustu áratugum gert breska Íhaldsflokkinn að leiðtoga lífs síns.

Það er margt líkt með vanda Íhaldsins í Bretlandi og Íslandi í dag.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur reyndar horft til bandaríska Repúblikanaflokksins, einkum hvað varðar kosningaáróður, en það er margt í bandarískum stjórnmálum sem hefur hentað illa til útflutnings, t.d. sjálft lykilatriðið í lífi flokksins undanfarna áratugi; samvist nýfrjálshyggju hinna allra ríkustu við afturhald í einka- og samfélagsmálum (hörð afstaða gegn fóstureyðingum, með byssueign, gegn hjónabandi samkynhneigðra, andstaða við innflytjendur og aðgerðum til að jafna stöðu undirsettra hópa, einkum afríkanskra Ameríkana – rasismi, með öðrum orðum). Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur því einkum elt breska íhaldið í stefnumálum allt frá Thatcher-árunum og elt flokkinn meira að segja út úr bandalagi hefðbundinna hægri flokka í Evrópu (kristilegra demókrata í Þýskalandi, íhaldsflokkanna á Norðurlöndum o.s.frv.) yfir í bandalag með Erdogan í Tyrklandi (sem er á hraðleið í alræðisstjórn undir vernd hersins), Lög og rétt í Póllandi (sem er að þrengja að mannréttindum og sjálfstæði dómstóla, upllausn lýðræðis að vestrænni fyrirmynd) og ýmissa hálf-fasískra flokka sem hafa orðið til í Austur-Evrópu í kjölfar samfélagslegrar upplausnar í kjölfar dólga-nýfrjálshyggju sem brunnið hefur þar eystra síðasta aldarfjórðunginn.

Það er margt líkt með vanda Íhaldsins í Bretlandi og Íslandi í dag. Báðir flokkar héldu að þeir gætu haldið Evrópu-skeptísku fólki innan sinna raða með því að sveigja flokkana frá Evrópu og frá bandalagi við hina hefðbundnu íhaldsflokka á meginlandinu, sem hafa fram að þessu verið burðarafl Evrópusambandsins ásamt sósíaldemókratískum flokkum. Bæði breska Íhaldið og það íslenska reyndi að andmæla Evrópusambandinu og öllu sem frá því kom í orði (fyrir fólk sem óttaðist aukna alþjóðavæðingu, minni völd hins lýðræðislega vettvangs, elítur og djúpríki) en halda tryggð við Evrópusambandið á borði (fyrir þau sem hafa hagnast mest á alþjóðavæðingunni; frjálsum flutningum fjármagns, lægri sköttum, einkavæðingu almannaeigna og opinbers rekstrar). Þjóðaratkvæðagreiðsla um Brexit átti að tryggja breska Íhaldinu áratug eða tvo í þessari stöðu; að halda andstöðunni við Evrópu inn í umræðunni en fresta öllum ákvörðunum fram í framtíðina í kjölfar þess að almenningur felldi tilllögu um útgöngu. Það gerðist hins vegar ekki og Íhaldsflokkurinn stóð frammi fyrir klofningi og hverfandi stöðu í breskum stjórnmálum. Þetta er svo alvarlegt. Í stað þess að geta bæði verið farvegur fyrir gagnrýni almennings á ESB og tryggja jafnframt auðvaldinu alla kostina af ESB varð Íhaldið flokkurinn sem neitaði almenningi um Brexit og tók ESB af auðvaldinu. Auðvitað er það svo að allur almenningur vill ekki Brexit og allt auðvaldið ESB; en þetta voru meginhóparnir sem sameinuðust innan Íhaldsflokksins; Evrópuskeptískur almenningur og alþjóða- og fjármálavæddur kapítalismi.


Sömu línur má sjá innan Sjálfstæðisflokksins íslenska. Ljósmmynd: Vísir.

Sömu línur má sjá innan Sjálfstæðisflokksins íslenska. Flokkurinn er hluti af baráttutækjum auðvaldsins og öll samtök fyrirtækja- og fjármagnseigenda hafa lýst yfir stuðningi við orkustefnu Evrópusambandsins sem 3ji orkupakkinn er hluti af; samkeppnis-, markaðs- og einkavæðingu orkugeirans, eins og annarra innviða og grunnkerfa samfélagsins. Grasót flokksins er hins vegar yfirgnæfandi á móti þessari stefnu; telur 3ja orkupakkann enn eitt skrefið í að færa uppbyggingu samfélagsins frá væntingum og hagsmunum almennings til utanaðkomandi valds; ýmist auðvaldsins í formi einkavæðingar á almannafyrirtækjum eða til Brussel með inntöku á stefnu sem mótuð er af ólýðræðislegu kerfi embættismanna með óljóst umboð.

Brexit hefur leyst upp samkomulagið sem áður hélt breska Íhaldsflokknum saman. Og það virðist engin leið til að ná þessum ólíku hópum saman á ný, sérstaklega ekki eftir að Nigel Farage náði flugi með Brexit-flokk sinn. Skipan Boris Johnson eða annars Evrópuskeptísks forystumanns hefði getað virkað fyrir tveimur árum en mun í dag alltaf verða of lítið, of seint. Hvers vegna að kjósa Íhaldsflokkinn sem eftirlíkingu af Brexit-flokki þegar frummyndin er í boði? Íhaldsflokkurinn þyrfti einskonar nýja byrjun, nýja stefnu og ný mál, til að sameinast um; en flokkurinn hefur komið því svo fyrir að ekki er hljómgrunnur fyrir slíkt (öll umræða hverfist um Brexit), flokkurinn hefur leitað að slíkum grunni en ekki fundið neinn sem sameinar ólíka hópa (uppgjör May við nýfrjálshyggjuarfleið Thatcher var bæði veikt og þokukennt) og aðrir flokkar væru í flestum tilfellum betri og skýrari kostur í hverju máli sem Íhaldið reyndi að nýta sér sem stökkpall. Í ofan á lagt hefur stjórnlaust klúður ríkisstjórnar Theresu May grafið undan trausti almennings á Íhaldsflokknum sem stofnun; þingið hefur niðurlægt ríkisstjórnina, hátt í fjörutíu ráðherrar hafa sagt af sér, háværustu andstæðingar May eru eins og skrípamyndir af veruleikafirrtu yfirstéttaliða, flokkurinn sem hafði þrjár milljónir félagsmanna um miðja síðustu öld er aðeins með 125 þúsund félagsmenn í dag, flokkurinn er háður fjárframlögum frá fyrirtækjum og hefur í raun verið rekinn af fjármálafyrirtækjunum í City of London síðustu áratugi. Breski Íhaldsflokkurinn er gerspilltur, lítið annað en skel fámennrar klíku utan um fjárstuðning frá þjófunum sem byggt hafa upp þjófræði nýfrjálshyggjunnar, stórkostlegar gripdeildir á almannaeignum. Eins og Sjálfstæðisflokkurinn.

Og á sama hátt og Brexit hefur klofið á milli fjármálavædds kapítalisma og grasrótar Íhaldsflokksins þannig er 3ji orkupakkinn að kljúfa á milli sömu afla í Sjálfstæðisflokknum. Og eins og breski Íhaldsflokkurinn var Sjálfstæðisflokkurinn eitt sinn fjöldahreyfing; hreyfing almennings sem gerði samkomulag við auðvaldið um sameiginlega stefnu. Frá 1980 og af vaxandi þunga frá 1990 hefur Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar breyst í hreint baráttutæki auðvaldsins, sem hefur ráðið nær öllu um stefnu flokksins, stefnu sem grasrótinni er ætlað að kyngja. Hið raunverulega kjördæmi forystu flokksins hefur verið samtök fyrirtækja- og fjármagnseigenda, eins og sést vel í 3ja orkupakkanum. Stefna flokksins hefur dregið úr völdum almennings, flutt ákvarðanir frá hinum lýðræðislega vettvangi og út á markaðinn (til auðvaldsins) og bundið þær í fjármálaáætlunum, alþjóðlegum skuldbindingum og slíku (til embættismanna og elítu). Og þegar greint er um þessa stefnu, eins og á sér stað varðandi orkustefnu ESB, þá kemur í ljós að forystan stendur öðrum megin gjárinnar en grasrótin hinum megin. Og forystan telur sig geta staðið þetta stríð af sér, að það sé hún og auðvaldið sem eigi flokkinn – ekki grasrótin.


Og eins og með Brexit-flokk Nigel Farage hefur Miðflokkur Sigmundar Davíðs stillt sér upp grasrótarmeginn við Sjálfstæðisflokkinn.

Og eins og með Brexit-flokk Nigel Farage hefur Miðflokkur Sigmundar Davíðs stillt sér upp grasrótarmeginn við Sjálfstæðisflokkinn. Og eins og með Íhaldsflokkinn breska er ekki að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn eigi sér erindi, forystufólk eða tilefni til að sameina aftur grasrótina og hagsmunagæslu auðvaldsins.

Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði fyrir þremur árum vegna Evrópumála. Viðreisn heldur í dag um ¼ af hefðbundnu hægra fylgi sem áður tilheyrði Sjálfstæðisflokknum. Miðflokkurinn tók hægra fylgi Framsóknar og nokkurt lausafylgi, en stefnur nú að því að taka til sín Evrópuskeptískt fylgi Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn er á milli þessara tveggja með stefnuna sem áður dugði Íhaldinu breska; að andmæla Evrópu í orði en ekkert gera gegn ESB á borði. Viðreisn er hins vegar fylgjandi ESB í orði og borði og Miðflokkurinn andmælir ESB í orði og er tilbúinn að bregðast við á borði. Það þarf ekki mikla visku til að sjá að ef stjórnmál næstu missera muni einkennast af vaxandi andstöðu við óhefta alþjóðavæðingu fjármálavædds kapítalisma og aukin krafa um endurreisn hins lýðræðislega valds og að þessi átök muni krystallast í deilum um Evrópusambandið, hlutverk þess og framtíð; þá er Sjálfstæðisflokkurinn ekki með góð spil á hendi. Þetta eru höndin sem James Cameron tapaði á og sama höndin og Theresa May var að kasta á borðið eftir uppgjöf sína.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: