- Advertisement -

Breytir plús í mínus

Þessi staða hefur grafið undan Jeremy Corbyn.

Gunnar Smári skrifar:

Það er erfitt að skilja bresk stjórnmál sem hverfast um Brexit og fátt annað. Þrátt fyrir að ríkisstjórn Theresu May hafi ekki tekist að þoka málinu neitt og sé í pattstöðu virðist sem það sé Verkamannaflokkurinn og Jeremy Corbyn sem séu að tapa frá sér fylginu. Þetta sést t.d. í könnunum Opinium fyrir The Observer. Í janúar var Verkamannaflokkurinn með 40% á móti 37% fylgis Íhaldsins. Um miðjan febrúar voru flokkarnir jafnir, báðir með 37% fylgi, Verkamannaflokkurinn hafði fallið niður til Íhaldsins. Núna um mánaðamótin hafði fylgi Verkamannaflokksins fallið niður í 34% á meðan Íhaldsflokkurinn hafði lyft sér upp í 40%. Á einum og hálfum mánuði hefur 3 prósentumunur Verkamannaflokksins í vil sveiflast í 6 prósentustig í mínus.

Síðasta könnun YouGov fyrir The Times sýndi Íhaldið í 41% en Verkamannaflokkinn í 30%. Það eru meiri yfirburðir Íhaldsins yfir Verkamannaflokknum en sést hafa á þessu kjörtímabili. Að undanförnu hefur Ukip heldur aukið fylgi sitt (um 5 prósentustigum yfir kjörfylgi) og klofningsframboð úr Verkamannaflokknum mælist með smá fylgi, Frjálslyndir demókratar eru um 2 prósentustigum yfir kjörfylgi. Svo það er ekki Íhaldið sem er vinna á, heldur beinist óánægjan með stjórn May allt annað en yfir til Verkamannaflokksins. Hann virðist vera talinn hluti af vandamálinu, ekki lausnin. Og vandamálið er að stjórnmálastéttin getur ekki leyst farsællega hið snúna Brexit.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Kannski hefði Corbyn getað leikið betur í stöðinni. En kannski er Brexit einfaldlega eitrað peð sem mun gera það illmögulegt að heyja venjulega pólitík í Bretlandi.

Þessi staða hefur grafið undan Jeremy Corbyn. Meðan hann réð hvaða mál voru á dagskrá, fyrir síðustu kosningar og mánuðina þar á eftir, jókst traust landsmanna á honum. En eftir því sem Brexit hefur lagst yfir sviðið minnkar traust almennings á Corbyn. Hjá Opinium fyrir The Observer um mánaðamótin sögðust 18% vilja hann sem forsætisráðherra. Fyrir ári sögðust 28% vilja Corbyn í Downingstræti og 34% stuttu eftir kosningarnar 2017. Þá var munurinn á honum og May 1 prósentustig May í vil en nú er munurinn orðinn 15 prósentustig. Þrátt fyrri allt klúður sitt er May enn á svipuðum slóðum og eftir kosningar en traustið á Corbyn hefur nánast helmingast.

Bretar spyrja líka um traust á flokksleiðtogum. Eftir kosningar treystu 31% Theresu May en 51% vantreystu henni. Um mánaðamótin hafði lítið breyst. 30% treystu Mey en 51% vantreystu henni.
Eftir kosningarnar 2017 sögðust 42% treysta Corbyn en 38% vantreysta honum. Nú er staðan sú að aðeins 20% treysta honum en 60% vantreysta. Hann hefur farið úr +4 yfir í -40, sveifla upp á 44 á meðan að May hefur bara sveiflast um 1.

Í kosningabaráttunni 2017 vöknuðu miklar vonir meðal róttækra vinstri manna í Bretlandi og víðar þegar Corbyn lagði fram róttæka stefnu, miðað við það sem Verkamannaflokkurinn hafði sett á oddinn áratugina á undan. Corbyn náði að stjórna umræðunni síðustu daga kosningabaráttunnar og mánuðina á eftir góða niðurstöðu í kosningunum. Smátt og smátt hefur Brexit náð að taka frumkvæðið af Corbyn og Verkamannaflokknum og skilið hann og flokkinn eftir í linnulausri vörn þrátt fyrir afleitan árangur Theresu May og Íhaldsflokksins.

Kannski hefði Corbyn getað leikið betur í stöðinni. En kannski er Brexit einfaldlega eitrað peð sem mun gera það illmögulegt að heyja venjulega pólitík í Bretlandi.


Booking.com

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: