- Advertisement -

Brýnt að ríkisstjórnin efni gefin loforð

Frítekjumark vegna lífeyrissjóðsgreiðslna hefur ekki hækkað um 1 kr. frá ársbyrjun 2017 eða í rúm fimm ár.

Viðar Eggertsson.

Viðar Eggertsson situr á þingi þessa dagana. Hann sagði í þingræðu:

Það er afar brýnt að ríkisstjórnin fari nú þegar að efna loforð sín í stjórnarsáttmálanum þar sem kveðið er á um að draga úr skerðingum á lífeyristaka, hvort sem það eru öryrkjar eða eldri borgarar. Vil ég nefna þrjú grunnatriði í þessu sambandi sem þarf að ráðast í, ekki seinna en strax.

Í fyrsta lagi að lágmarkslífeyrir verði ekki lægri en lægstu umsömdu taxtalaun. Nú er svo komið að hæsti mögulegi ellilífeyrir er um 95.000 kr. lægri en lægstu umsömdu laun á vinnumarkaði. Munurinn hefur aukist jafnt og þétt síðasta áratug þrátt fyrir nokkra leiðréttingu 2017. Þegar skoðuð eru gögn aftur til 2010 er vöxtur í ellilífeyrisgreiðslum um 95% fram til dagsins í dag. Vöxtur í lægstu launatöxtunum er á hinn bóginn um 140% á sama tíma.

…og nú æðir verðbólgan áfram.

Í öðru lagi skerðingar. Frítekjumark verði strax hækkað í 100.000 kr. Frítekjumark vegna lífeyrissjóðsgreiðslna hefur ekki hækkað um 1 kr. frá ársbyrjun 2017 eða í rúm fimm ár, var 25.000 kr. þá og er enn sama krónutala og nú æðir verðbólgan áfram. Hækkun frítekjumarks í 100.000 kr. kemur öllum til góða og það sem mest er um vert er að mesta kjarabótin verður hjá þeim sem minnstar hafa ráðstöfunartekjurnar.

Í þriðja lagi heimilisuppbót til allra, burt séð frá búsetu. Það þarf strax að afnema þá útkjálkareglu að binda gamalt fólk í vistarbönd, og það á 21. öldinni, með því að taka af því í heimilisuppbótina (Forseti hringir.) ef það vogar sér að búa annars staðar en hér á landi í dýrustu matarkörfu Evrópu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: