- Advertisement -

Bullandi uppsveifla í atvinnulífinu

Úlfur, úlfur er galað í Borgartúni meðan atvinnulífið er í blóma.

Barlómur forstjóra og framkvæmdastjóra, 400 stærstu fyrirtækja landsins, er fullkomlega á skjön við raunveruleikann.

Landsbankinn hefur skrifað fréttaskýringu um stöðuna á vinnumarkaði:

„Hagtölur gefa almennt vísbendingu um sterkan og virkan vinnumarkað. Niðurstöður könnunar Gallup meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins í lok síðasta árs gáfu hins vegar töluvert aðra mynd. 10% fyrirtækjanna bjóst við fjölgun starfsmanna en 30% þeirra við fækkun á næstu sex mánuðum. Samsvarandi tölur árið áður voru 28% sem reiknuðu með fjölgun og 13% með fækkun.

Höfuðstöðvar atvinnurekenda.

Starfandi fólk var tæplega átta þúsund fleira nú í janúar en í janúar 2018. Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal er enn nokkuð stöðug aukning á starfandi fólki. Á þann mælikvarða voru um 4.300 fleiri starfandi í janúar 2019 en í janúar 2018. Atvinnuþátttaka í janúar var 81,9% en var 81,5% í janúar 2018, þannig að atvinnuþátttaka jókst um 0,4 prósentustig milli ára.“

Dregur úr atvinnuleysi

Höldum áfram með fréttaskýringu Landsbankans:

„Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hefur atvinnuleysi samkvæmt mælingum Hagstofunnar verið nokkuð stöðugt í næstum tvö ár en fór þó lækkandi seinni hluta ársins 2018. Tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi fóru hins vegar hækkandi seinni hluta ársins 2018. Skráð atvinnuleysi var þannig 3% nú í janúar samanborið við 2,2% í janúar 2018. Almennt er búist við því að atvinnuleysi hafi nú þegar náð lágmarki í hagsveiflunni eftir mikla lækkun fram til ársins 2017.“

Sterkur og virkur vinnumarkaður

Í fréttaskýringunni kemur glöggt fram hversu langt frá staðreyndum forráðamenn 400 stærstu fyrirtækjanna hafa talað.

„Tölurnar hér að framan gefa almennt vísbendingu um sterkan og virkan vinnumarkað. Niðurstöður síðustu könnunar Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins í lok síðasta árs gáfu hins vegar til kynna mun lakara mat á aðstæðum í atvinnulífinu en könnunin hefur sýnt allt frá árinu 2014.

31% stjórnenda taldi aðstæður í atvinnulífinu góðar í lok ársins 2018, samanborið við 70% árið áður, og 23% töldu þær slæmar. 10% fyrirtækjanna bjóst við fjölgun starfsmanna en 30% þeirra við fækkun á næstu sex mánuðum. Samsvarandi tölur árið áður voru 28% sem reiknuðu með fjölgun og 13% með fækkun.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: